- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Einblínum ekki á forskotið – förum út til þess að vinna

handbolti.is/Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
- Auglýsing -

„Ég er mest ánægður með að fá alvöru frammistöðu í leiknum og vera með leik undir þegar maður kemur út í síðari leikinn,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals í samtali við handbolta.is í kvöld strax eftir að Valur hafði unnið gríska liðið Olympiacos, 30:26, í fyrri viðureign liðanna í úrslitum Evrópubikarkeppninnar í stórkostlegri stemningu í N1-höll Vals á Hlíðarenda.

Pælum bara ekkert í því

„Að sjálfsögðu stefnum við á að fara út og vinna síðari leikinn og keppnina. Eftir 13 sigurleiki þá kemur ekki annað til greina. Þar af leiðandi er forskotið gott þótt við megum alls ekki einblína á það heldur að ná alvöru leik úti. Hvort fjögur mörk verða nóg eða ekki. Við pælum bara ekkert í því,“ sagði Óskar Bjarni ennfremur en hann var skiljanlega í sjöunda himni með leikinn og alla umgjörðin í kringum leikinn og frábæra stuðningsmenn sem troðfylltu N1-höllina.

Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals gefur skipanir í leiknum í kvöld. Alexander Petersson í forgrunni. handbolti.is/Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir

Heilt yfir, frábær sigur

„Þrátt fyrir að talsvert hafi verið um tæknifeila í fyrri hálfleik og nokkuð hafi vantað upp á markvörsluna þá var leikurinn nokkuð heilsteyptur hjá okkur. Spennustigið var svolítið hátt í upphafi sem er ekkert óeðlilegt. Þótt menn hafa upplifað margt þá er það svið sem við erum á orðið nokkuð stórt. En heilt yfir, frábær sigur,“ sagði Óskar Bjarni sem á von á öðrum takti í gríska liðinu ytra. Það eigi eflaust eftir að keyra meira upp hraðann auk þess sem þeir fá þá sína stuðningsmenn kolvitlausa að baki sér.

Vildu ekki missa leikinn í vitleysu

„Mér fannst leikmenn Olympiacos vera rólegir undir lokin í kvöld. Þeir gættu þess að missa ekki leikinn niður í mínus átta eða níu. Ég á von á þeim í öðrum gír á heimavelli. Þeir skoruðu til að mynda 39 mörk á heimavelli gegn FTC í undanúrslitum. Þeir vildu ekki missa þennan leik í vitleysu og það tókst þeim þótt þeir töpuðu. Olympiacos er með breiddina í leikmannahópnum til þess að taka slaginn í hraðanum með okkur sé því að skipta.
Við erum bara í forréttindastöðu og eigum að njóta næstu viku fram yfir síðari leikinn. Menn eru ekki í þessari stöðu á hverjum degi,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals í samtali við handbolta.is í kvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -