- Auglýsing -
- Auglýsing -

Einn í einangrun og tveir í sóttkví – æfing felld niður og allir sendir í skimun

Fyrsta æfing landsliðsins verður ekki fyrr en á morgun. Mynd/Mummi Lú
- Auglýsing -

Tveir leikmenn í íslenska landsliðinu í handknattleik karla eru í sóttkví og einn er í einangrun um þessar mundir. Hætt var við fyrstu æfingu landsliðsins sem fram átti að fara í dag. Þess í stað fóru leikmenn sem ekki eru í einangrun eða í sóttkví í PCR próf. Um er að ræða 17 leikmenn sem fóru í PCR próf af þeim 20 sem Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari valdi í EM-hóp sinn skömmu fyrir jól.

Niðurstaða úr PCR prófum dagsins liggur fyrir í kvöld og þá munu leikmenn ásamt þjálfara og öðrum starfsmönnum sem fá neikvæða niðurstöðu tínast inn á hótel þar sem hópurinn verður í svokallaðri búbblu þangað til farið verður til Ungverjalands 11. janúar.


Þetta staðfesti Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, í samtali við handbolta.is fyrir stundu. Róbert sagði leikmennina tvo sem eru í sóttkví losna úr henni á þriðjudaginn. Sá sem er í einangrun lýkur henni um miðja viku. Róber Geir segir að þetta ekki eiga að koma niður á undirbúningi liðsins að verulegu leyti enda sé sá sem er í einangrun við góða heilsu miðað við aðstæður.

Vonandi verða allir neikvæðir

„Við vildum hafa vaðið fyrir neðan okkur og þess vegna var eina skynsama leiðin að senda alla í PCR próf í dag, hafa varan á eins og kostur er. Ég vona að allir verði neikvæðir svo við getum sett upp búbbluna og hafið undirbúning,“ sagði Róbert Geir sem vonast til að frekar röskun verði ekki á undirbúningnum.

Fyrsta æfing landsliðsins verður á morgun með þeim leikmönnum sem klárir verða í slaginn.

Æfingar landsliðsins verða lokaðar öllum sem eru utan búbblunnar, þar á meðal fjölmiðlum.

Smit á skrifstofu HSÍ

Til viðbótar kom upp smit á meðal starfsfólks á skrifstofu HSÍ á síðustu dögum ársins. Það snertir þrjá sem áttu að vera í tengslum við landsliðið á næstu dögum. Tveir starfsmenn eru til viðbótar í sóttkví fram á þriðjudag. Smituðu starfsmennirnir verða í einangrun fram á föstudag og laugardag.
Róbert Geir segir að þeir hafi ekki verið í tengslum við leikmenn fyrir áramótin og því er útilokað að smit hafi borist frá þeim inn í leikmannahóp landsliðsins. Veiran fari hinsvegar um eins og eldur í sinu. Þar af leiðandi virðist enginn óhultur um þessar mundir.


Enn er stefnt að því að leika vináttuleiki við Litáen á Ásvöllum á föstudag og sunnudag.

Fyrsti leikur íslenska landsliðsins á EM verður 14. janúar gegn landsliði Portúgal.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -