- Auglýsing -
- Auglýsing -

Eins mikil óheppni möguleg er

Gunnar Gunnarsson hefur verið sagt upp starfi þjálfara kvennaliðs Hauka. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

„Sigurmarkið var eins mikil óheppni af okkar hálfu og mögulegt er,“ sagði Gunnar Gunnarsson, þjálfari kvennaliðs Hauka, eftir að lið hans tapaði, 24:23, í fyrir Íslandsmeisturum KA/Þórs í fyrstu umferð úrslitakeppni Olísdeildarinnar í handknattleik kvenna í gær. Aldís Ásta Heimisdóttir skoraði sigurmarkið eftir að leiktíminn var úti, 24:23. Hún kastaði boltanum milli handa varnarmanna Hauka sem stóðu í vörninni og framhjá markverðinum.


Sjá má ítarlega umfjöllun ásamt myndum og myndbandi í frétt Akureyri.net sem er hér. Um leið er rifjað upp sögulegt sigurmark Guðjóns Vals Sigurðssonar fyrir KA í undanúrslitum Íslandsmótsins fyrir 21 ári.

Ekki yfir vafa hafið

Reyndar hefur verið haft samband við handbolta.is og á það bent að vafi leiki á að sigurmark Aldísar Ástu í leiknum við Hauka í gær hafi verið löglegt þar sem hún virðist lyfta vinstri fætinu upp þegar kastar boltanum. Á upptöku af atvikinu, sem sjá má myndskeiði tengda frétt Akureyri.net, er erfitt að slá einhverju föstu eins og skarpskyggn og glöggur maður með arnarsjón sem handbolti.is rabbaði við í gærkvöld sagði er hann var beðinn um að leggja mat á lögmæti sigurmarksins.

Hefði viljað framlengingu

„Það hefði verið gaman að fá framlengingu en því miður varð það ekki raunin,“ sagði Gunnar ennfremur en lið hans fékk á sig þrjú síðustu mörkin sem skoruðu voru í leiknum. Haukar höfðu yfirhöndina, 23:21, þegar sex mínútur voru eftir.


„Við vorum komin með góða stöðu í seinni hálfleik með tveggja marka forskot og eigum möguleika á að ná þriggja marka forskoti,“ sagði Gunnar sem var ekki allskostar ánægður með dómgæsluna.

Langar sóknir og fleiri brottvísanir

„Mér fannst KA/Þórsliðið fá stundum að leika mjög langar sóknir á sama tíma og við lékum mjög góða vörn. Sumar sóknirnar voru kannski ein mínúta á sama tíma og hendur dómaranna voru komnar á loft eftir 30 til 40 sekúndur þegar við vorum í sókn. Við fengum fimm brottvísanir á okkur en KA/Þór enga. Mér fannst mikil virðing borin fyrir Íslandsmeisturunum. Ég óska þeim jafnframt til hamingju með sigurinn og velfarnaðar í framhaldinu,“ sagði Gunnar.


Haukar voru fjórum mörkum undir í hálfleik, 15:11, en tókst með þrautseigju og aga að jafna metin og komast yfir í síðari hálfleik. Sama var upp á teningnum í fyrri hálfleik. Haukar voru síst lakara liðið fyrstu 20 mínúturnar en skoruðu aðeins eitt af síðustu sjö mörkum fyrri hálfleik. Gunnar sagði að þrjár brottvísanir á loka þriðjungi fyrri hálfleiks hafi reynst liðinu dýrar og orðið þess m.a. valdandi að Haukar voru fjórum mörkum undir í hálfleik.

Synd að fá ekkert

„Við vorum a.m.k. manni færri og stundum tveimur færri á síðustu tíu mínútum fyrri og seinni hálfleiks. Báðum köflum töpuðum við þrjú núll. Í hálfleik fórum við vel yfir að sýna meiri yfirvegun í leik okkar þegar við værum manni færri.


Eins var sóknarleikurinn áræðnari í síðari hálfleik, Sara var mjög góð, auk þess sem varnarleikurinn var þéttari og Magga frábær í markinu. Allt lagðist á eitt að við unnum fljótt upp forskotið í síðari hálfleik og vorum síst lakari í þeim leikhluta.
Stelpurnar höfðu trú á verkefninu og lögðu sig alla fram. Þess vegna er synd að við fengum ekki neitt út úr leiknum þegar upp er staðið,“ sagði Gunnar Gunnarsson þjálfari kvennaliðs Hauka í samtali við handbolta.is á Ásvöllum í gær.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -