- Tveir leikmenn skoruðu meira en 10 mörk í upphafsleik Olísdeildar karla. Eyjamaðurinn Hákon Daði Styrmisson skoraði 13 mörk í Austurbergi gegn ÍR þegar ÍBV vann ÍR-inga, 38:31, í miklum markaleik. Hákon Daði notaði 14 skot til þess að skora mörkin 13. Þar af nýtti Hákon Daði öll sex vítaköstin sem hann tók í leiknum. Frábær leikur hjá Eyjamanninum.
- ÍR-ingarnir Úlfur Gunnar Kjartansson og Sveinn Brynjar Agnarsson fóru vel með sín tækifæri til að skora gegn ÍBV. Hvor um sig nýtti fimm af sex markskotum sínum í leiknum.
- Guðmundur Hólmar Helgason skoraði 11 mörk fyrir Selfoss í sigri á Stjörnunni, 27:26. Þetta var fyrsti deildarleikur Guðmundar Hólmars hér heima í fjögur ár og óhætt að segja að hann hafi stimplað sig strax inn í deildarkeppnina. Guðmundur skapaði líka fjögur færi sem gáfu mörk. Einnig átti hann sex löglegar stöðvanir.
- Sjö af 14 leikmönnum Stjörnunnar í leiknum við Selfoss höfðu ekki leikið fyrir liðið áður á Íslandsmóti. Mikil uppstokkun varð á leikmannahópi liðsins eftir síðasta keppnistímabil og nýr þjálfari, Patrekur Jóhannesson, tók við stjórnvölnum og með honum m.a. gamla stórskyttan Einar Friðrik Hólmgeirsson. Einnig er nýr þjálfari við stjórnvölinn hjá Selfoss-liðinu sem Stjarnan átti í höggi við, Halldór Jóhann Sigfússon.
- Leikmenn KA og Fram voru með fullkomna nýtingu úr hraðaupphlaupum þegar liðin mættust í KA-heimilinu á föstudag. Fram skoraði í sex skipti eftir hraðaupphlaup og heimaliðið fimm sinnum.
- Í jöfnum leikjum skiptir markvarslan miklu máli. Nicholas Satchwell, markvörður KA, var með rúmlega 39% hlutfallsmarkvörslu á sama tíma og Lárus Helgi Ólafsson, í marki, var var nærri 11 prósentustigum lægri. KA vann leikinn með tveggja marka mun, 23:21.
- Áki Egilsnes leikmaður KA skoraði úr sex af 14 skotum sínum í leiknum við Fram. Hann var með sjö löglegar stöðvanir, stal boltanum tvisvar og skapaði tvö marktækifæri.
- Andri Sigmarsson Scheving var með 42,9% hlutfallsmarkvörslu í marki Hauka gegn Gróttu í naumum sigri liðsins á Gróttu, 20:19, í Hertz höllinni á Seltjarnarnesi á fimmudagskvöld. Samherji Andra, Heimir Óli Heimisson, fór einnig mikinn og var með átta löglegar stöðvanir og blokkeraði tvö skot. Ólafur Brim Stefánsson var fyrirferðamikill í vörn Gróttu og náði sjö löglegum stöðvunum.
- Ágúst Birgisson, línumaður FH, nýtt færi sín vel í stórleiknum við Val í Kaplakrika á laugardaginn. Hann skoraði fimm sinnum úr jafnmörgum skotum. Ágúst var einnig með sex löglegar stöðvanir í vörninni og blokkeraði eitt skot.
- Valsarinn, Finnur Ingi Stefánsson, nýtti einnig sín tækifæri til að skora afar vel og brást aðeins bogalistin úr einu skot af átta og skilaði þar með sjö mörkum af 33 sem Valur skoraði hjá FH. Samherji Finns, Magnús Óli Magnússon, skoraði sex mörk átti sjö stoðsendingar.
- Hinn bráðefnilegi 18 ára Mosfellingur, Þorsteinn Leó Gunnarsson, skoraði fimm mörk í sjö skotum gegn Þór í sínum fyrsta leik í meistaraflokki á Íslandsmóti. Einnig átti hann eina stoðsendingu.
- Þórsarinn Garðar Már Jónsson vakti athygli fyrir góðan leik gegn Aftureldingu að Varmá. Garðar skoraði fimm mörk í sex skotum auk þess sem hann átti eina stoðsendingu.
- Unnið upp úr gagnagrunni HBStatz á heimasíðu Handknattleikssambands Íslands.
- Næsta umferð Olísdeildar karla hefst á fimmtudaginn. Leikir annarrar umferðar verða þessir:
Fimmtudagur:
Höllin Ak.: Þór Ak. – FH kl. 19
Hertzhöllin: Grótta – Stjarnan kl. 19.30
Framhús: Fram – Afturelding kl. 19.30
Föstudagur:
Origohöllin: Valur – ÍR kl. 18
Hleðsluhöllin: Selfoss – KA kl. 19.30
Laugardagur:
Schenkerhöllin: Haukar – ÍBV kl. 17.30
- Auglýsing -