Svíinn Niclas Ekberg tryggði THW Kiel annað stigið í heimsókn til pólska meistaraliðsins Industria Kielce í 11. umferð A-riðils Meistaradeildar Evrópu í handknattleik karla í gærkvöld, 36:36. Kiel var með yfirhöndina í leiknum lengst af en Kielce-menn áttu góðan endasprett og voru óheppnir að vinna ekki eins og síðustu mínúturnar þróuðust.
Haukur skoraði ekki
Liðin er í tveimur efstu sætum riðilsins. Kiel hefur 16 stig en pólska meistaraliðið er þremur stigum á eftir.
Haukur Þrastarson, leikmaður Industria Kielce, kom lítið við sögu í viðureigninni. Alex Dujshebaev og Nicolas Tournat skoruðu sjö mörk hvor fyrir Kielce. Svíarnir Ekberg og Eric Johansson skoruðu einnig sjö mörk hvor fyrir THW Kiel.

Öruggt hjá PSG
Í sama riðli vann franska liðið PSG öruggan sigur ár Euorfarm Pelister, 31:25, í Boro Curlevski keppnishöllinni í Bitola í Norður Makedóníu í gærkvöld. Dejan Manaskov var einn fimm leikmanna Pelister sem skoraði þrjú mörk. Kamil Syprzak skoraði sjö mörk fyrir PSG og Spánverjinn Ferran Solé var næstur með fimm mörk.

Nielsen var í stuði
Danski landsliðsmarkvörðurinn Emil Nielsen fór illa með landa sína í meistaraliðinu GOG þegar Barcelona kom í heimsókn í Sydbank Arena Kolding þar sem GOG lék að þessu sinni. Nielsen varði 20 skot, 46,5%, og átti stærstan þátt í að Bacelona vann með sjö marka mun, 30:23.
Emil Madsen skoraði sex mörk fyrir GOG. Melvyn Richardson skoraði einnig sex mörk fyrir Barcelona.
Montpellier lagði Celje, 32:21, einnig í B-riðli. Valentine Porte skoraði sex mörk fyrir Montpellier. Mitja Janc skoraði fjórum sinnum fyrir Celje og var markahæstur.
Fjórir síðustu leikir 11. umferðar fara fram í kvöld:
Kl. 17.45: Aalborg – RK Zagreb.
Kl. 17.45: Pick Szeged – Kolstad.
Kl. 19.45: Porto – Telekom Veszprém.
Kl. 19.45: SC Magdeburg – Wisla Plock.
Hægt er að fylgjast með leikjunum í opinni dagskrá hér á landi hjá EHFtv.com.