- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ekkert hik á ÍR-ingum – skilja Stjörnuna eftir

Leikmenn ÍR mæta til leiks í Vestmannaeyjum í kvöld þegar úrslitakeppni Olísdeildar kvenna hefst. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Nýliðar ÍR halda áfram að gera það gott í Olísdeild kvenna í handknattleik. Í dag gerði liðið sér lítið fyrir og lagði Stjörnuna, 28:23, í Skógarseli í Breiðholti og er liðið komið með sex stig eftir sex leiki.

ÍR hefur þar með unnið þrjá af fjórum heimaleikjum á tímabilinu og situr í fimmta sæti, tveimur stigum á eftir Haukum og Fram sem lagði ÍBV í Eyjum, 23:20, í leik sem lauk rétt í kjölfar viðureignarinnar í Skógarseli.

Stjarnan er áfram í mestu vandræðum á botni deildarinnar með eitt stig eins og KA/Þór sem tekur á móti Aftureldingu nyrðra síðari í dag.


ÍR-ingar voru yfir í leiknum frá upphafi til enda. Um tíma í fyrri hálfleik var munurinn fimm mörk, 12:7. Stjarnan klóraði aðeins í bakkann rétt fyrir hálfleik og var tveimur mörkum undir að honum loknum, 14:12.

Heimaliðið hélt áfram af krafti í síðari hálfleik og náði aftur fimm marka forskoti áður en Stjarnan náði áhlaupi og minnkaði muninn í þrjú mörk, 19:16. Í framhaldinu fór tvö upplögð marktækifæri í súginn hjá Stjörnunni og ÍR komst fimm mörkum yfir á ný, 21:16.

Leikmenn Stjörnunnar héldu áfram eltingaleiknum en höfðu ekki erindi sem erfiði. Ásthildur Bertha Bjarkadóttir, fyrrverandi leikmaður Stjörnunnar, innsiglaði sigur ÍR einni og hálfri mínútu fyrir leikslok, 26:23. ÍR-ingar bættu tveimur mörkum við áður en leiktíminn var úti.

Eins áður voru Karen Tinna Demian og Sara Dögg Hjaltadóttir allt í öllu hjá ÍR-liðinu. Hildur Öder Einarsdóttir varði á mikilvægum tíma í síðari hálfleik, þar á meðal tvö vítaköst. Heilt yfir lítur vel út hjá ÍR sem svo sannarlega hefur komið mörgum á óvart til þessa.

Darija Zecevic, markvörður, lék með Stjörnunni á nýjan leik eftir að hafa samið við félagið á dögunum. Hún getur eflaust hjálpað upp á sakirnar hjá Stjörnunni þegar á líður en ljóst er að eftir því sem tapleikjunum fjölgar hjá Stjörnu liðinu þá þyngist róðurinn, utan vallar sem innan.

Embla Steindórsdóttir skaraði fram úr öðrum hjá Stjörnunni. Hún var að vanda áræðin, skoraði sex mörk og skapaði nokkur færi til viðbótar auk þess að vinna vítaköst.

Staðan og næstu leikir í Olísdeild kvenna.

Mörk ÍR: Karen Tinna Demian 9/4, Sara Dögg Hjaltadóttir 6, Hanna Karen Ólafsdóttir 4, Sigrún Ása Ásgrímsdóttir 3, Matthildur Lilja Jónsdóttir 3, Anna María Aðalsteinsdóttir 2, Ásthildur Bertha Bjarkadóttir 1.
Varin skot: Hildur Öder Einarsdóttir 6/2, 37,5% – Ísabella Schöbel Björnsdóttir 4/1, 23,5%.

Mörk Stjörnunnar: Embla Steindórsdóttir 6/1, Eva Björk Davíðsdóttir 5/4, Anna Karen Hansdóttir 4, Elísabet Gunnarsdóttir 3, Helena Rut Örvarsdóttir 2, Vigdís Arna Hjartardóttir 1, Stefanía Theodórsdóttir 1, Ivana Jorna Meincke 1.
Varin skot: Darija Zecevic 9, 25% – Elísabet Millý Elíasardóttir 0.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -