Einn allra reyndasti og litríkasti handknattleiksmaður landsins, línumaðurinn Kári Kristján Kristjánsson, hefur ákveðið að taka slaginn áfram með Íslandsmeisturum ÍBV. Félagið segir frá þessum gleðifregnum á samfélagsmiðlum.
Kári Kristján, sem er 38 ára gamall, hefur um langt árabil verið einn allra öflugasti línumaður landsins, þrautreyndur landsliðsmaður og atvinnumaður með félagsliðum í Danmörku, Sviss og Þýskalandi. Auk ÍBV hefur hann leikið með Haukum og Val hér heima en lengst af með ÍBV, nú síðast frá 2015.
Kári Kristján var í stóru hlutverki hjá ÍBV á nýliðinni leiktíð þegar liðið varð Íslandsmeistari og því afar mikilvægt fyrir liðið að mega áfram treysta á liðsstyrkinn og reynsluna hjá þessum trausta línumanni sem oft hefur verið líkt við Heimaklett.
Alls eru landsleikir Kári Kristjáns 144, þeir síðustu á EM 2020 í Svíþjóð.