- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ekkert í hendi þótt staðan sé vænleg

Arnar Gauti Grettisson var markahæstur hjá Víkingi í kvöld með fimm mörk. Mynd/Þorgils G - Fjölnir handbolti
- Auglýsing -

„Eins og Fjölnisliðið lék í kvöld þá var það líkara því liði sem ég reiknaði með að mætti okkur í fyrsta leiknum. Fjölnir er með þrumu gott lið. Þess vegna verðum við og munum gefa allt í leikinn á mánudaginn,“ sagði Jón Gunnlaugur Viggósson þjálfari Víkings við handbolta.is í kvöld eftir fjögurra marka sigur Víkinga, 29:25, á Fjölni í annarri viðureign liðanna í umspili Olísdeildar karla í Dalhúsum í Grafarvogi.

Með tvo vinninga

Þar með stendur Víkingur afar vel að vígi, með tvo vinninga, eftir tvær viðureignir en þrjá sigra þarf til þess að vinna umspilið og öðlast sæti í Olísdeild karla á næstu leiktíð.
Leikurinn var afar kaflaskiptur af hálfu beggja liða. Jón Gunnlaugur var óhress með sína menn í fyrri hálfleik eftir að botninn datt alveg úr leik liðsins síðustu 20 mínúturnar.

Koðnuðum niður

„Við byrjuðum vel en koðnuðum svo algjörlega niður eftir nokkrar mínútur og misstum Fjölnismenn hressilega fram úr okkur. Eitt er að missa dampinn í sóknarleiknum en að koðna um leið niður í varnarleiknum er óviðunandi. Menn fóru bara algjörlega úr „konseptinu.“ Þar með réttum við Fjölnismönnum leikinn. Þeir slógu ekki hendinni á móti því,“ sagði Jón Gunnlaugur um fyrri hálfleikinn sem var afar kaflaskiptur hjá Víkingum. Eftir góðar fyrstu tíu mínútur tók við svartnætti fram að hálfleik. Á 20 mínútna kafla skoraði Víkingsliðið fjögur mörk en fékk á sig 13 og var 15:11 undir eftir 30 mínútur.

Fóru að fyrirmælum

„Menn gerðu það sem fyrir þá var lagt í síðari hálfleik og fóru eftir því alveg til leiksloka. Það reið kannski baggamuninn þegar upp var staðið og skilaði okkur sigrinum.

Niðurstaðan var gleðileg en það er ekki hægt að útiloka að mikið sé enn eftir af þessu einvígi þótt staðan sé eins og hún er eftir tvær viðureignir. Staða okkar er góð en getur breyst ef við vinnum ekki næsta leik sem fram fer á mánudaginn.

Vill sjá sem allra flesta

Ég vil hvetja alla til þess að fjölmenna í Safamýri klukkan tvö á mánudaginn, jafnt Víkinga sem Fjölnismenn,“ sagði Jón Gunnlaugur Viggósson hinn röggsami þjálfari karlaliðs Víkings í samtali við handbolta.is í Dalhúsum í kvöld.

Hér fyrir neðan er hlekkur á myndasyrpu Þorgils ljósmyndara Fjölnis frá leiknum í Dalhúsum í kvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -