- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ekki sanngjarnt – hreinlega pínlegt

Christian Berge, þjálfari norska karlalandsliðsins. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Það er ljóst að þetta fyrirkomulag er langt frá því að vera sanngjarnt en það hefur viðgengist um árabil. Til dæmis fengu Frakkar að velja sér andstæðinga með sama hætti þegar dregið var í riðla á HM 2017,“ sagði Christian Berge, þjálfari norska karlalandsliðsins í handknattleik í samtali við VG í heimalandi sínu.


Mörgum þótti sérstakt þegar gert var fimm mínútna hlé á drætti í riðla fyrir HM karla í Egyptalandi í gær þegar búið var að draga 24 af 32 þjóðum í riðlana átta. Ástæðan fyrir hléinu var sú að Egyptar þurftu að ráða ráðum sínum og velja í hvaða riðil þeir vildu fara. Mörgum sem fylgdust með drættinum þótti þetta fyrirkomulag koma spánskt fyrir sjónir og hafa gert talsvert veður út af, m.a. á samfélagsmiðum. Hinsvegar hefur þessi háttur verið hafður á um langt skeið og m.a. fengu forráðamenn íslenska landsliðsins að velja sér riðil og þar af leiðandi andstæðinga þegar dregið í riðla fyrir HM 1995.


Berge segir að ljóst sé að þetta fyrirkomulag sé barn síns tíma þótt það eigi ekki að koma á óvart. Það sé hreinlega ekki sanngjarnt. „Ég ætla á hinn bóginn ekki að eyða kröftum í að býsnast meira yfir þessu,“ sagði Berge ennfremur.


„Hvernig getur íþrótt sem vill láta taka sig alvarlega haft þennan hátt á,“ spurði norski sjónvarpsmaðurinn Daniel Höglund og bætti við. „Það var hreinlega pínlegt fyrir íþróttina að verða vitni að þessu. Egyptar sem gestgjafar og auk þess heimaland forseta Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, velur sér andstæðinga þegar nærri er búið að draga í alla riðlana.“

Ekkert með forsetann að gera

Per Bertelsen, formaður danska handknattleikssambandsins sem er auk þess formaður mótanefndar IHF, segir þetta fyrirkomulag hafa verið við lýði í háa herrans tíð og hafi ekkert með forseta IHF að gera. „Það eina sem var nýtt að þessu sinni var að þátttökuþjóðirnar verða 32 í stað 24 eins og verið hefur lengi. Ég skil ekki í hverju gagnrýni Norðmanna felst. Þeir fengu að velja sér riðil þegar þeir voru gestgjafar EM2020 í karlaflokki ásamt Svíum og Austurríkismönnum,“ sagði Bertelsen yfirvegaður að vanda og bætti við.

Per Bertelsen, formaður mótanefndar IHF, t.h., ásamt Heiner Brand fyrrverandi landsliðþjálfara Þýskalands. Mynd/EPA


„Þegar dregið var í riðla fyrir HM2019 þá var búið að raða gestgjöfunum, Dönum og Þjóðverjum, niður á ákveðna leikstaði áður en dregið var, eitthvað sem hentaði þeim. Eins var gert varðandi Svía og Króata. Á HM í Katar og á HM í Frakklandi fengu heimamenn að velja sér andstæðinga eins og Egyptar nú. Ég veit ekki í hverju þessi óánægja felst. Þetta eru þær reglur sem eru við líði og eiga ekki að koma neinum á óvart. Svo er annað mál hvort menn séu sáttir við reglurnar eða ekki,“ sagði Per Bertelsen, formaður mótanefndar IHF.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -