Landsliðsmaðurinn Elvar Ásgeirsson hefur samið við danska úrvalsdeildarliðið Ribe-Esbjerg til tveggja ára. Samningurinn tekur gildi í sumar en um leið losnar Elvar undan samningi við franska liðið Nancy. Hann nýtti sér nýverið uppsagnarákvæði í samningi sínum en ár var eftir af þeim samningi.
Langaði að breyta til
„Okkur langaði bara breyta til og fá meiri stöðugleika í okkar líf og komast nær því umhverfi sem við þekkjum. Þrátt fyrir að það hafi verið gott skref fyrir mig sem handboltamann að ganga til liðs við Nancy þá er annað sem mér líkar ekki eins vel hér,“ sagði Elvar í samtali við handbolta.is.
Stóð nokkrir kostir til boða
Elvar hafði úr nokkrum kostum að velja þegar kom að því að breyta til. Þeir voru m.a. að vera áfram í Frakklandi, fara á ný til Þýskalands eða að flytja til Danmerkur. Eftir að hafa velt möguleikunum fyrir sér ákvað Elvar að slá til og semja við Ribe-Esbjerg sem hefur góða reynslu af íslenskum handknattleiksmönnum. Hann var þó um skeið með annað danskt félagslið í sigtinu en veðjaði á Ribe-Esbjerg í stað þess.
Nokkrir Íslendingar hafa í gegnum tíðina leikið með Ribe og síðar Ribe Esbjerg eftir að félögin sameinuðu krafta sína í einu karlaliði. Meðal þeirra eru: - Gísli Felix Bjarnason, markvörður, og Gunnar Gunnarsson léku með Ribe á níunda áratug síðustu aldar. Síðar léku Egill Jóhannsson og Dagur Jónasson með Ribe. - Karl Jóhann Guðmundsson, Hafsteinn Ingason og Tryggvi Haraldsson sömdu við Ribe árið 2006 en þá lék liðið í næst efstu deild. - Gunnar Steinn Jónsson og Rúnar Kárason léku með Ribe Esbjerg frá 2018 til 2021. Daníel Þór Ingason kom til félagsins 2019 og var í tvö ár.
Hindranir verða úr vegi
„Við flytjum til Danmerkur í sumar eftir að keppnistímabilinu verður lokið í Frakklandi. Það ríkir eftirvænting hjá okkur fyrir þessum breytingum. Með þeim verða tungumálaerfiðleikar ekki hindrun í samskiptum,“ sagði Elvar sem hefur verið hjá Nancy í eitt ár. Hann kom til félagsins i febrúar fyrir ári eftir að hafa verið í hálft annað ár hjá Stuttgart í Þýskalandi.
Í óvæntu hlutverki á EM
Elvar sló í gegn með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu í janúar þegar hann lék sína fyrstu A-landsleiki á ferlinum og stökk óvænt inn í mikið stærra hlutverk en hann og eflaust ýmsa aðra óraði fyrir áður en mótið hófst. Elvar segir að frammistaðan á EM hafi alltént auðveldað þjálfara Ribe-Esbjerg að gera upp hug sinn.
Öllum vafa var eytt
„Þjálfari Ribe-Esbjerg sagði mér að hann hafi verið að velta því fyrir sér fyrir EM hvort það ætti gera mér tilboð eða ekki. Eftir að hann sá mig spila þá sagðist hann ekki hafa verið lengur í vafa. Svo EM hefur örugglega hjálpað til,“ sagði Elvar sem verður annar Íslendinguinn í herbúðum Ribe-Esbjerg á næsta keppnistímabili. Snemma í janúar samdi landsliðsmarkvörðurinn Ágúst Elí Björgvinsson einnig við félagið.
Ribe-Esbjerg er í áttunda sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 20 stig eftir 20 leiki.