Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handknattleik, ákvað í morgun að kalla hina þrautreyndu Katrine Lunde inn í landsliðshópinn sem mætir Rúmeníu í lokaumferð D-riðils EM kvenna í Kolding í kvöld.
Lunde, sem stendur á fertugu, leikur í kvöld sinn 300. A-landsleik og verður þar með reyndasti markvörður heims í kvennahandknattleik um þessar mundir. Átján ár eru liðin síðan hún lék sinn fyrsta A-landsleik.
Lunde kemur inn í liðið fyrir Emily Stang Sando sem varði norska markið í tveimur fyrstu leikjum mótsins ásamt Rikke Granlund. Lunde var ekki í upphaflegum hóp fyrir mótið. Eftir að hún missti fóstur á dögunum sendi hún Þóri skilaboð um að hún væri tilbúin að leggja sitt lóð á vogarskálina utan vallar sem innan.
Lunde lék ekki með norska landsliðinu á HM fyrir ári síðan vegna meiðsla en þá stóð Silja Solberg á milli stanganna. Solberg er nýlega komin á fætur eftir þriggja vikna einangrun vegna kórónuveirusmits. Sennilegt er talið að hún komi inn í norska landsliðið þegar á keppnina líður.
Leikur Noregs og Rúmeníu hefst klukkan 19.30 og verður m.a. sýndur á RÚV2.
FRÉTTAVAKTIN - Handbolti.is:
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
Nýlegt á handbolti.is