„Okkar markmið er að tryggja okkur sæti á HM á næsta ári og komast inn á EM eftir tvö ár. Til þess að ná því verðum við helst að vinna að minnsta kosti einn leik í milliriðlakeppninni og best væri að ná því strax í fyrsta leik,“ sagði Heimir Ríkarðsson þjálfari U18 ára landsliðs karla í samtali við handbolta.is í gær.
Í dag leikur U18 ára landslið karla fyrri leik sinn í milliriðlakeppni liðanna sem verða í sætum níu til sextán á Evrópumótinu sem fram hefur farið í Podgorica í Svartfjallalandi frá 4. ágúst og stendur til 14.
Íslenska landsliðið mætir Svartfellingum í dag og Ítölum á morgun og þarf a.m.k. sigur í annarri viðureigninni til þess að tryggja sér sæti á meðal 12 efstu sem skiptir miklu máli fyrir framtíðarþátttöku þessa aldursflokka á stórmótum næstu tvö árin eins og útskýrt er í viðhengi fyrir neðan með þessari grein.
Viðureignin við Svartfellinga hefst klukkan 14 í dag og verður að vanda í textalýsingu hjá handbolta.is.
„Svartfellingar eru með hörkulið. Þeir veittu Portúgal harða keppni á dögunum, unnu Ítalíu en steinlágu fyrir Króötum. Það er ágæt rútína á svartfellska liðinu. Það leikur hratt í sókninni og beitir til skiptis sex núll vörn og þrír, tveir, einn. Leikmenn eru fljótir á fótunum. Við verðum virkilega að gæta að okkur,“ sagði Heimir.
Liðin sem hafna í ellefu efstu sætum EMU18, auk landsliðs Króatíu, tryggja sér keppnisrétt á HM U19 ára landsliða sem fram fer í Króatíu á næsta sumri. Einnig fara sigurvegararnir frá B-mótum EM þremur sem nú standa yfir inn á HM sem fulltrúar Evrópu. EM20 ára landsliða sem fram fer eftir tvö ár verður skipað 24 liðum, ekki 16 eins og nú er. Framkvæmdastjórn EHF samþykkti í vor að fjölga liðum í lokakeppni yngri landsliða til samræmis við það sem gerist á meðal A-liða. Af þessu leiðir að 13 efstu liðin á EM í Svartfjallandi fá farseðil í lokakeppni EM 20 ára landsliða eftir tvö ár.
Lá fyrir frá byrjun
Ísland náði ekki öðru af tveimur efstu sætunum í riðlakeppni á fyrsta stigi mótsins. Heimir sagði ljóst að riðilinn með Ungverjum, Pólverjum og ríkjandi Evrópumeisturum Þjóðverja hafi verið sterkur. Það hafi legið fyrir strax þegar dregið var í riðla í vetur að brugðið gæti til beggja vona um að komast í átta liða úrslit.
Þrettán marka sigur Íslands á Póllandi í fyrstu umferð riðlakeppni EMU18 ára 4. ágúst sl., 38:25, er stærsti sigur íslensks landsliðs í lokakeppni EM í þessum aldursflokki frá upphafi samkvæmt samantekt Handknattleikssambands Evrópu sem heldur skrá yfir úrslit allra leikjum frá upphafi.
„Það er fullur fókus hjá okkur að klára verkefnið sem bíður okkar. Við ætlum að klára okkar verkefni með sóma,“ sagði Heimir Ríkarðsson annar þjálfara U18 ára landslið karla í handknattleik.
Staðan í riðlunum – sæti níu til sextán:
Ísland | 1 | 1 | 0 | 0 | 38 – 25 | 2 |
Svartfjallaland | 1 | 1 | 0 | 0 | 31 – 22 | 2 |
Ítalía | 1 | 0 | 0 | 1 | 22 – 31 | 0 |
Pólland | 1 | 0 | 0 | 1 | 25 – 38 | 0 |
Serbía | 1 | 1 | 0 | 0 | 30 – 25 | 2 |
Færeyjar | 1 | 1 | 0 | 0 | 29 – 26 | 2 |
Frakkland | 1 | 0 | 0 | 1 | 26 – 29 | 0 |
Slóvenía | 1 | 0 | 0 | 1 | 25 – 30 | 0 |