- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

EMU18: Bitu aldrei úr nálinni eftir afleitt upphaf

Að hluta til er U19 ára landsliðið skipað sömu leikmönnum og tóku þátt í EM18 ára landsliða í Podgorica í sumar. Heimir Ríkarðsson og EInar Jónsson ræða hér við piltana í einum leikja sumarsins. Mynd/EHF
- Auglýsing -

Íslenska landsliðið í handknattleik karla, skipað leikmönnum 18 ára og yngri, tapaði með sjö marka mun, 30:23, fyrir Ungverjum í annarri umferð A-riðils á Evrópumótinu í Podgorica í Svartfjallalandi í dag. Ungverska liðið var sterkara frá upphafi til enda og var með fjögurra marka forskot eftir fyrri hálfleik, 15:11.


Framundan er úrslitaleikur á milli Íslendinga og Þjóðverja um sæti í átta liða úrslitum á sunnudaginn klukkan 12. Ungverjar eru þegar komnir í átta liða úrslit eftir tvo sigurleiki.


Upphafskaflinn og slakur sóknarleikur varð íslenska liðinu að falli að þessu sinni. Ungverjar skoruðu átta af fyrstu níu mörkum leiksins á fyrstu 10 mínútunum. Segja má að upphafskaflinn hafi sett mark sitt á framhaldið. Íslensku strákunum auðnaðist aldrei að bíta úr nálinni eftir upphafsmínúturnar tíu.


Eftir það var á brattann að sækja hjá íslenska liðinu. Það átti þess kost að minnka muninn í þrjú mörk í síðari hálfleik en tókst ekki. Ekki bætti úr skák að ungversku markverðirnir voru vel með á nótunum. Varnarmenn liðsins eru hávaxnir og gerðu íslensku sóknarmönnunum erfitt um vik.


Á morgun verður frí. Þá geta menn sleikt sárin og safnað kröftum fyrir viðureignina við Þýskaland sem vann Pólland fyrr í dag með fjögurra marka mun, 33:29. Ekki er ástæða til þess að hengja haus yfir þessu tapi.


Atli Steinn Arnarson var valinn besti leikmaður íslenska landsliðsins í leiknum. Mynd/HSÍ


Mörk Íslands: Atli Steinn Arnarson 5, Skarphéðinn Ívar Einarsson 3, Viðar Ernir Reimarsson 3, Elmar Erlingsson 2, Sæþór Atlason 2, Örrur Haraldsson 2, Andri Fannar Elísson 1, Andrés Marel Sigurðarson 1, Hans Jörgen Ólafsson 1, Birkir Snær Steinsson 1, Kjartan Þór Júlíusson 1, Sigurður Snær Sigurjónsson 1.


Varin skot: Breki Hrafn Árnason 15.


Handbolti.is fylgdist með leiknum í beinni textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -