U18 ára landsliðið í handknattleik karla vann öruggan sigur á Ítölum, 34:28, í síðari leik sínum í milliriðlakeppni neðri hluta liðanna á Evrópumótinu í Podgorica í Svartfjallalandi í dag. Þar með leikur íslenska liðið að öllum líkindum við Frakka í krossspili um níunda sætið á föstudaginn en Ísland er í efsta sæti síns riðils en flest bendir til að Frakkar hreppi annað sætið í hinum riðlinum.
Fjórða leikinn í röð voru íslensku piltarnir ekki með á nótunum framan af fyrri hálfleik. Þeir voru sex mörkum undir, 8:2, eftir um 11 mínútur áður en þeir náðu áttum. Upp úr þessi vöknuðu leikmenn íslenska liðsins og náðu að komast yfir, 16:15, rétt áður en fyrri hálfleikur var á enda.
Ítalir jöfnuðu metin, 16:16, í upphafi síðari hálfleiks. Íslenska liðið svaraði með fimm mörkum. Eftir það má segja að ítalska liðinu hafi fallið allur ketill í eld. Það hafði ekki uppi neina sérstaka burði að snúa við taflinu. Íslensku piltarnir bættu jafnt og þétt við forskot sitt. Mestur varð munurinn 10 mörk, 34:24. Íslensku mörkin hefðu hæglega getað orðið mikið fleiri ef ekki hefði komið til kæruleysis þegar menn fundu að mótspyrnann var ekki mikil.
Eftir leikinn á föstudaginn leikur íslenska liðið um sæti níu eða ellefu á laugardaginn áður en mótinu lýkur.
Mörk Íslands: Össur Haraldsson 9, Sigurður Snær Sigurjónsson 8, Sæþór Atlason 4, Atli Steinn Arnarson 3, Birkir Snær Steinsson 3, Hinrik Hugi Heiðarsson 2, Skarphéðinn Ívar Einarsson 2, Andri Fannar Elísson 1, Ísak Steinsson 1, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 1.
Varin skot: Breki Hrafn Árnason 10, Ísak Steinsson 4.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.