„Við gerum okkur grein fyrir því að framundan er mjög erfiður leikur gegn Þjóðverjum og að úrslitin ráða miklu um framhaldið. Sigur kemur okkur í topp átta en annars förum við í baráttuna um níunda til sextánda sætið. Þjóðverjar eru í sömu sporum og við,“ sagði Heimir Ríkarðsson annar þjálfara U18 ára landsliðs karla í handknattleik þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans í dag þegar frídagur var frá kappleikjum á Evrópumótinu í handknattleik í Podgorica í Svartfjallalandi.
Dagurinn var nýttur til þess að búa sig undir síðasta leikinn í A-riðli mótsins áður en milliriðlakeppnin tekur við. Eins og kom fram hjá Heimi verður talsvert undir í leiknum við Þýskaland. Flautað verður til leiks klukkan 12. Hvort lið hefur einn vinning eftir tvær viðureignir.
Mættust síðast fyrir mánuði
„Við lékum við Þjóðverja á æfingamóti í Þýskalandi fyrir mánuði síðan og töpuðum með tveggja marka mun eftir að hafa verið undir nánast allan leikinn. Undir lokin áttum við möguleika á að jafna en það lánaðist ekki og Þjóðverjar skoruðu sigurmarkið.
Ef draga á ályktun af þeirri viðureign má búast við jöfnum og spennandi leik á morgun, ef allt verður eðlilegt. Það er bara allt eða ekkert á morgun,“ sagði Heimir sem væntir þess að leikmenn sínir mætir klárari til leiks á morgun en gegn Ungverjalandi í gær.
Okkur tókst aldrei að ógna
„Hvorki gekk né rak í sóknarleiknum fyrstu 10 til 15 mínúturnar með þeim afleiðingum að við lentum undir, 8:1. Við vorum að elta eftir það. Okkur gafst kostur á að minnka muninn niður í þrjú mörk rétt fyrir hálfleikinn en tókst ekki. Aftur var möguleiki í síðari hálfleik en allt kom fyrir ekki. Okkur tókst því miður aldrei að ógna ungverska liðinu eftir góðan byrjun þess, því miður.
Ég var ánægður með að strákarnir börðust til loka. Þeir gáfust aldrei upp þótt staðan væri erfið,“ sagði Heimir ennfremur.
Höfum farið vel yfir okkar mál
„Við höfum farið vel yfir okkar mál á þremur fundum og einni æfingu. Ef við komum ákveðnir til leiks á móti Þjóðverjum þá tel ég okkur eiga ágæta möguleika. Svo sannarlega getur brugðið til beggja vona. Þjóðverjar eru með hörkulið,“ sagði Heimir Ríkarðsson annar þjálfara U18 ára landsliðs karla í samtali við handbolta.is.
Hægt verður að fylgjast með leik Íslands og Þýskalands í textalýsingu á handbolti.is á morgun. Viðureignin hefst klukkan 12. Einnig verður leikurinn sendur út hjá ehftv.com.