- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

EMU18: Tíunda sæti eftir tap fyrir Færeyjum – tveir áfangar í höfn

U18 ára landsliðið sem sem tók þátt í EM á síðasta ári og tryggði þar með U19 ára landsliðinu sæti á HM í sumar. Mynd/EHF
- Auglýsing -

Íslenska landsliðið í handknattleik karla, U18 ára, hafnaði í 10. sæti á Evrópumótinu í Podgorica í Svartfjallalandi í dag. Liðið tapaði fyrir færeyska landsliðinu með tveggja marka mun, 29:27, eftir að hafa verið tveimur mörkum yfir í hálfleik, 15:13, í sögulegum leik en þetta var fyrsti kappleikur bræðraþjóðanna Íslendinga og Færeyinga á stórmóti í handknattleik karla.


Færeyingar hreppa þar með níunda sæti mótsins og annað Evrópumótið í röð í sumar eru þeir í sæti fyrir ofan Ísland. Hitt mótið var EMU20 ára landsliða í síðasta mánuði. Þá hafnaði Ísland í 11. sæti en Færeyjar með sitt efnilega lið í 10. sæti.

Niðurstaðan íslenska liðsins á mótinu eru fjórir sigrar og þrjú töp, 10. sætið, farseðill á HM 19 ára landsliða eftir ár og annar farseðill á EM20 ára landsliða eftir tvö ár. Er það ekki býsna gott?

Stuðningsmenn íslenska landsliðsins á leikjunum í Podgorica studdu liðið með ráðum og dáð frá upphafi til enda. Mynd/EHF

Íslenska liðið var sterkara í fyrri hálfleik og var með yfirhöndina frá upphafi til enda að því undanskildu að færeyska liðið komst yfir, 9:8. Íslensku piltarnir svöruðu þá með fimm mörkum í röð og lögðu grunn að forskoti í hálfleik, 15:13.

Færeyska liðið var svo mun ákveðnara í síðari hálfleik. Betur gekk því að leysa varnarleik íslenska liðsins en í þeim fyrri. Óli Mittún reyndist íslensku varnarmönnunum erfiður. Hann skoraði 11 mörk og lýkur mótinu sem markakóngur með 80 mörk.

Heldur gekk sóknarleikur íslenska liðsins ekki eins greiðlega í síðari hálfleik og í þeim. Góð færi fóru forgörðum. Því fór sem fór og þegar upp var staðið var færeyskur sigur e.t.v. ekki ósanngjarn.


Mörk Íslands: Elmar Erlingsson 7, Andri Fannar Elísson 4, Kjartan Þór Júlíusson 4, Viðar Ernir Reimarsson 3, Hinrik Hugi Heiðarsson 2, Andrés Marel Sigurðarson 1, Birkir Snær Steinsson 1, Atli Steinn Arnarson 1, Össur Haraldsson 1, Sigurður Snær Sigurjónsson 1, Skarphéðinn Ívar Einarsson 1, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 1.

Varin skot: Breki Hrafn Árnason 8, Ísak Steinsson 1.

Mörk Færeyja: Óli Mittún 11, Rókur Ziskason 7, Niklas Gaard 3, Isak Vedelsbøl 3, Búi Poulsen 2, Marcus Bramsen 1, Rói Hjaltason 1. Eitt mark vantar í tölfræðinu hjá EHF.

Slóvenía vann Svartfjallaland, 28:26, í leiknum um 11. sætið.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -