- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

EMU19: Með betri leikjum sem liðið hefur leikið

Ágúst Þór Jóhannsson og Árni Stefán Guðjónsson ræða við leikmenn sína í leikhléi. Mynd/EHF/Mihai Nitoiu
- Auglýsing -

„Ég er mjög sáttur og glaður með heildarframmistöðuna sem var mjög góð. Þetta var með betri leikjum sem við höfum leikið. Við hefðum getað unnið með tíu marka mun en það skiptir ekki öllu þegar upp staðið. Mestu máli skiptir að við unnum mjög sannfærandi og góðan sigur. Stelpurnar eiga skilið hrós fyrir fagmannlega frammistöðu,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfara U19 ára landsliðs kvenna við handbolta.is eftir öruggan sex marka sigur á landsliði Norður Makedóníu í krossspili um 13. sæti Evrópumótsins í handknattleik í Mioveni í Rúmeníu í morgun, 35:29.

Elísa Elíasdóttir og Embla Steindórsdóttir í vörninni í leiknum í morgun. Mynd/EHF/Mihai Nitoiu

Mjög góður varnarleikur

„Varnarleikurinn var mjög góður, ekki síst 5/1 vörnin, sem varð til þess að við unnum boltann átta sinnum og lögðum grunn að mörgum hraðaupphlaupum. Eins var 6/0 vörnin fín en í henni tókst okkur að koma mikið í veg fyrir klippingarnar sem Norður Makedóníuliðið lagði mikið upp úr. Vörnin lagði grunn að því að okkur tókst að halda uppi fullum dampi í sextíu mínútur og keyra hressilega á andstæðinginn,“ sagði Ágúst Þór.

Góður taktur í sókninni

Íslenska liðið hefur skorað yfir 30 mörk í hverjum og einum leik til þessa á mótinu sem undirstrikar að sóknarleikurinn hefur verið mjög góður, að sögn þjálfarans.

„Takturinn hjá liðinu er mjög góður. Sem fyrr fáum við framlag frá mörgum leikmönnum sem skapast í góðum uppstilltum sóknarleik með fjölda góðra marktækifæra,“ sagði Ágúst Þór sem sér fram á afar mikilvægan leik á morgun um 13. sætið á mótinu og það síðasta sem veitir beinan keppnisrétt á HM 20 ára landsliða á næsta ári.

Elísa Helga Sigurðardótir, Elín Klara Þorkelsdóttir, Alfa Brá Hagalín Oddsdóttir, Brynja Katrín Benediktsdóttir, Katrín Anna Ásmundsdóttir, Hildur Lilja Jónsdóttir, Inga Dís Jóhannsdóttir, Valgerðu Arnalds, Thelma Melsteð Björgvinsdóttir og Rakel Oddný Guðmundsdóttir. Mynd/EHF/Mihai Nitoiu

Leggjum allt í sölurnar

„Eftir tvo góða sigra í röð þá snýst dagurinn í dag um að halda sér á jörðinni og hvílast vel fyrir átökin á morgun. Stelpurnar verða að vera duglegar að nærast. Hér í Rúmeníu er mikill hiti og raki. Dagurinn snýst um endurheimt áður en morgundagurinn rennur upp. Við munum leggja allt í sölurnar í leiknum enda kemur ekkert annað til greina en sigur,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson.

Serbía eða Króatía?

Síðar í dag kemur í ljós hvort íslenska liðið leikur við Serbíu eða Króatíu um 13. sæti mótsins og klukkan hvað flautað verður til leiks. Handbolti.is mun segja frá um leið og framhaldið skýrist.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -