Færeyjar, Króatía, Portúgal og Þýskaland hafa tryggt sér sæti í átta liða úrslitum heimsmeistaramóts karla í handknattleik, skipað leikmönnum 21 árs og yngri, þegar fyrri hluta milliriðlakeppni mótsins er lokið. Lið sex þjóða horfa löngunaraugum á þau fjögur sæti sem enn eru í boði. Íslenska landsliðið er eitt þeirra en einnig danska landsliðið sem Arnór Atlason stýrir af röggsemi.
Leikir átta liða úrslita fara fram í Max Schmeling-Halle í Berlín á fimmtudaginn. Sigurliðin komast í undanúrslit, tapliðin leika um sæti fimm til átta á föstudag.
Spánverjar og Frakkar eru úr leik
Ungverjar, Svíar, Serbar og Egyptar eru einnig í baráttunni. Evrópumeistarar 20 ára landsliða frá síðasta ári, Spánverjar, eru úr leik í keppninni um átta efstu sætin. Í þeirra hlut kemur að leika um sæti níu til sextán. Sömu sögu er að segja um Frakka. Þeir eru úr myndinni eftir eins marks tap fyrir Þýskalandi í Magdeburg í kvöld, 30:29.
Frakkar hafa tapað með eins marks mun fyrir Króötum og Þjóðverjum sem fara áfram í átta liða úrslit um milliriðli eitt.
Náðu sér ekki á strik
Ísland er með fjögur stig í milliriðli fjögur og mætir Egyptalandi á morgun kl. 14.30. Egyptar eru með tvö stig. Þeir steinlágu fyrir Serbum í dag, 33:26. Afríkumeistararnir náðu sér aldrei á flug í leiknum gegn firnasterkum Serbum sem hlutu bronsverðlaun á EM 20 ára landsliða fyrir ári. Serbar eru með tvö stig og mæta Grikkjum á morgun. Þeir síðarnefndu eru án stiga og eiga ekki möguleika á að ná einu af átta efstu sætunum. Serbar verða að fá að a.m.k. eitt stig gegn Grikkjum til þess að fara í átta liða úrslit.
Í sömu sporum
Í milliriðli þrjú eru Ungverjar í sömu sporum og íslenska liðið. Þeir hafa fjögur stig og eiga eftir að leika við Svía. Sænska landsliðið er með tvö stig. Svíar töpuðu fyrir Dönum í dag, 29:26. Danska liðið hefur tvö stig.
Gætu sloppið með tap
Danir leika við Bareina á morgun og þurfa helst á sigri að halda. Eitt stig gæti dugað Dönum fyrir utan að ekki er útlokað að þeir mega jafnvel tapa. Þá verða reyndar Ungverjar að leggja Svía. Viðureign Ungverja og Svía verður lokið þegar Danir og Bareinar mæta út á keppnisvöllinn.