- Auglýsing -
- Auglýsing -

Engan bilbug að finna á Víkingum – horfa bjartsýnir fram veginn

Jóhann Reynir Gunnlaugsson fyrirliði Víkings. Mynd/Víkingur
- Auglýsing -

Engan bilbug er að finna á Víkingum að sögn Jóhanns Reynis Gunnlaugssonar fyrirliða þrátt fyrir að lið þeirra hafi fallið úr Olísdeildinni á dögunum eftir að hafa átt á brattann að sækja frá upphafi.


„Ég ætla að halda áfram og veit ekki betur en að flestir leikmenn séu á sömu skoðun og verði með í Grill66-deildinni á næsta keppnistímabili. Jóhannes Berg Andrason fer í FH og Jovan Kukobat í Aftureldingu. Einhverjir stefna utan til náms. Meginþorri hópsins verður áfram auk þess sem stefnt er á að bæta í, frekar en hitt,“ sagði Jóhann Reynir þegar handbolti.is tók á honum púlsinn í gær.

Með svipað ef ekki sterkara lið

„Mér telst til að við verðum með svipað lið, ef ekki sterkara á næsta keppnistímabili. Útlitið er gott,“ sagði Jóhann Reynir ákveðinn. Nokkrir nýir leikmenn bættust í hópinn skömmu fyrir tímabilið í fyrra og jafnvel um áramótin enda hafi það ekki verið ljóst fyrr en eftir mitt sumar að Víkingur tæki sæti í Olísdeildinni. Nýir leikmenn þurfi sinn tíma til þess að venjast öðrum samherjum.

Tekur tíma að byggja upp

„Það tekur alltaf sinn tíma að spila lið saman. Þess vegna er mjög mikilvægt þegar lið falla að hægt sé að halda sem flestum leikmönnum áfram svo möguleiki gefist til að byggja upp vel spilandi lið af leikmönnum sem hafa verið saman í tvö til þrjú ár. Að þessu stefnum við,“ sagði Jóhann Reynir sem er í hópi reynslumeiri leikmanna Víkings um þessar mundir.

Jóhann Reynir í þann mund að kasta boltanum að marki KA. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson


Jóhann Reynir varð markahæstur leikmanna Vikings og sá tólfti hæsti í Olísdeildinni með 101 mark.

Erfitt en um leið lærdómsríkt

„Eins og og við mátti búast var veturinn erfiður en um leið að mörgu leyti lærdómsríkur fyrir okkur,“ sagði Jóhann Reynir.


„Það er stigsmunur á Olísdeildinn og Grilldeildinni, líkamlega, getulega. Menn er sterkari og sneggri í Olísdeildinni og meira undir í öllum leikjum. Þegar öllu er á botninn hvolft þá vorum við ekki eins langt á eftir mörgum liðum og niðurstaða tímabilsins segir til um,“ sagði Jóhann Reynir en Víkingur lauk keppni með þrjú stig í 22 leikjum. Fáir leikir töpuðust með miklum mun eins og stundum vill verða hjá liðum sem reka lestina og vonleysi grípur um sig.

Niðurstaðan segir ekki alla söguna

„Sannarlega er erfitt að tapa mörgum leikjum. En þegar tímabilið er skoðað gaumgæfilega kemur skýrt fram að í fimmtán leikjum af tuttugu og tveimur þá vorum við vel inni í leikjunum þar til átta til fjórtán mínútur eru til leiksloka. Þar af leiðandi segir niðurstaðan, þrjú stig, ekki alla söguna hvernig tímabilið var hjá okkur,“ sagði Jóhann Reynir en leikmenn hafa farið mjög gaumgæfilega yfir leiki tímabilsins með það að markmiði að draga af því lærdóm.


„Við lékum á köflum hörku góðan bolta og sýndum að liðið er betra en stigin þrjú gefa til kynna þegar upp er staðið.“

Lögðu aldrei árar í bát

Jóhann Reynir segist hafa reynslu af því að leika með liðum sem falla úr efstu deild. Að mörgu leyti hafi stemningin og viljinn verið meiri innan raða Víkings á tímabilinu en á meðal annarra liða í svipaðri stöðu sem hann hafi reynslu af. Vissulega reyni sálfræðilega á leikmenn og þjálfara að tapa hverjum leiknum á fætur öðru og stundum gefi menn upp vonina. Það hafi aldrei verið raunin hjá Víkingi þótt á móti blési.

Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari Víkings, fyrir miðri mynd ásmt Andra Berg Haraldssyni aðstoðarþjálfara. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Varð aldrei að kvöð

„Æfingarnar voru góðar tímabilið út og við gerðum allt til þess að halda í vonina og jákvæðnina með því að horfa á þau atriði sem við gerðum vel og læra af því sem mátti gera betur. Af því leiddi að æfingar og leikir voru aldrei kvöð. Til viðbótar var vel haldið utan um starfið og liðið af góðri stjórn sem hélt vel utan allt sem að okkur laut.“

Jákvætt skref í Safamýri

Víkingur færir út kvíarnar í sumar þegar félagið bætir við sig íþróttahúsinu í Safamýri við flutning Fram í Úlfarsárdal. Áfram verða Víkingar í Víkinni í Fossvogi. „Mér líst afar vel á það sem framundan er hjá félaginu með uppbyggingunni í Safamýri og búa til handboltamenningu þar þótt ekki megi gleyma mikilvægi þess fyrir leikmenn að halda sér á þeim stað sem þeir þekkja, það er æfa og leika í sama salnum, vera áfram í sínum klefa og svo framvegis.

Horfum bjartsýn fram veginn

Aðstaða Víkings í heild mun aukast með viðbótinni í Safamýri sem veitir aukið frjálsræði við val á æfingatímum og þess háttar sem er jákvætt auk þess sem Víkingshverfið stækkar við þetta. Iðkendum fjölgar í yngri flokkana og fyllsta ástæða er til að horfa með bjartsýni fram veginn,“ sagði Jóhann Reynir Gunnlaugsson fyrirliði karlaliðs Víkings.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -