- Auglýsing -
Óvíst er hvernær handknattleikskonan Hildur Þorgeirsdóttir leikur með Fram á nýjan leik. Hún hefur ekkert leikið með bikar, – og deildarmeisturunum eftir að keppni hófst aftur um miðjan janúar.
Skarð er fyrir skildi enda er Hildur einn reyndasti leikmaður Fram. Hún hefur verið í burðarhlutverki jafnt í varnar,- og sóknarleik Safamýrarliðsins á undangengnum árum eftir að hún flutti heim að lokinni nokkurra ára veru hjá þýsku liðunum Blomberg-Lippe og Koblenz.
„Ég hef verið að glíma við meiðsli í hælnum. Þess vegna hef ég ekkert getað gert síðustu vikur en þetta er vonandi að koma núna,“ sagði Hildur við handbolta.is í morgun.
Eftir því sem handbolti.is kemst næst eru meiðsli Hildar ekki ósvipuð þeim sem eru að hrjá aðra handknattleikskonu í fremstu röð síðustu vikur, Mörthu Hermannsdóttur leikmann KA/Þórs, og handbolti.is sagði síðast frá í gær.