- Auglýsing -
- Auglýsing -

Eru í öngum sínum yfir biðinni eftir Viktori Gísla

Frammistaða Viktor Gísla Hallgrímssonar með Nantes á síðustu vikum hefur orðið til að auka til muna áhuga fyrir honum með handknattleiksliða og áhugamanna um íþróttina. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Eins árs samningur þýska stórliðsins THW Kiel við franska landsliðsmarkvörðinn Vincent Gérard virðist síst hafa dregið úr vangaveltum og vonum stuðningsmanna liðsins um að Viktor Gísli Hallgrímsson markvörður íslenska landsliðsins og HBC Nantes komi til THW Kiel. Og það helst fyrr en síðar.


Gérard kemur til Kiel á næsta sumri og leysir af danska landsliðsmarkvörðinn Niklas Landin sem flytur til Álaborgar. Landin er guðatölu hjá stuðningsmönnum Kiel.

Ljóst er að með eins árs samningi við Frakkann eru forráðamenn Kiel að velta fyrir sér öðrum kostum frá og með sumrinu 2024. Reyndar mun ekki vera útilokað að Gérard bjóðist ár í viðbót eftir tímabilið 2024.


Hinn markvörður Kiel um þessar mundir er Tékkinn Tomas Mrkva. Samningur hans við félagið rennur út sumarið 2024. Mrkva kom til félagsins í sumar og er fyrst og fremst Landin til halds og trausts enda stendur Daninn alla jafna í marki Kiel á meðan stætt er.

Með tvo undir smásjá

Þýskir fjölmiðlar, m.a. RTL og staðarblaðið Kieler Nachrichten, hafa gert því skóna síðustu daga að forráðamenn THW Kiel hafi Viktor Gísla undir smásjá og einnig Bosníumanninn Benjamin Buric. Buric er annar markvörður grannliðsins Flensburg-Handewitt. Hann er samningsbundinn í báða skó hjá Flensburg til júníloka 2024.

Viktor Gísli er hinsvegar á fyrsta ári af þriggja ára samningi við Nantes og verður þar af leiðandi ekki laus mála fyrr en sumarið 2025.


Eftir frammistöðu Viktors Gísla í undanförnum leikjum, þar á meðal gegn Kiel, í Meistaradeildinni virðast einhverjir stuðningsmenn vera nánast í öngum sínum yfir þeirri staðreynd að verða bíða verði fram til ársins 2025 eftir Íslendingnum vaska sem þessa dagana gengur nánast berserksgang í marki Nantes leik eftir leik.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -