- Auglýsing -
- Auglýsing -

Eru kannski ýktara á sumum sviðum

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari, er þjálfari í Norðurlandaúrvali sem Rasmus Boysen valdi í morgun. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Lið Marokkó er svipað og lið Alsír en er kannski ýktara á sumum sviðum leiksins. Þeir fara enn framar á leikvöllinn, alveg fram að miðju sem þýðir að við verðum mjög langt frá markinu,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í gær, í samtali við handbolta.is spurður um landslið Marokkó sem íslenska landsliðið mætir í kvöld í lokaleik sínum í F-riðli heimsmeistaramótsins í handknattleik. Flautað verður til leiks klukkan 19.30.


„Við fórum yfir þessi atriði á æfingunni áðan og reyndum að fá tilfinninguna fyrir í hvaða stöðu maður er og hvað þarf að gera til að leysa þrautina. Leikurinn snýst um að komast á ferðina, vera á hreyfingu og komast að markinu án þess að þurfa að drippla boltanum á leiðinni. Tíminn er stuttur á milli leikja og því verður undirbúningur að vera mjög markviss. Einnig fórum við vel yfir „yfirtöluna“ en hún gekk vel með Alsír.“

Guðmundur sagði það þó vera kost að mæta Marokkó næst á eftir leiknum við Alsír. „Þar með nýtist margt af því sem við unnum með fyrir þann leik í leiknum mjög fljótt aftur áður en kemur að hefðbundnari andstæðingum. Við áttum okkur hinsvegar á að það er ekkert gefið á svona móti. Á HM er enginn leikur auðveldur. Þegar náð er góðu forskoti eins og við gerðum á móti Alsír þá gerist það ekki að sjálfu sér. Það þarf vinnusemi og einbeitingu til þess vegna þess að andstæðingrinn er það góður. Portúgal lenti í miklum vandræðum í fyrri hálfleik gegn Marokkó. Alsír sömuleiðis. Handboltinn í dag er þannig að menn verða að vera á fullu frá upphafi til enda í leikjum til þess að ná árangri,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari í samtali við handbolta.is í Kaíró í gær.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -