- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Erum alltaf með þegar við eigum þess kost

Deildarmeistarar Hauka taka þátt í Evrópukeppni á næstu leiktíð. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

„Þegar við höfum átt þess kost að taka þátt í Evrópukeppni þá höfum við verið með. Á því verður engin breyting á núna,“ sagði Þorgeir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Hauka við handbolta.is. Hann staðfesti þar með að Haukar skrái lið sitt til leiks í Evrópubikarkeppninni. Þrjú íslensk karlalið og jafn mörg kvennalið eiga rétt á að taka þátt í keppninni á næstu leiktíð. Til viðbótar eiga Íslandsmeistararnir KA/Þór og Valur þess kost að vera með í Evrópudeildinni.


Þegar hefur komið fram að Selfoss og Valur ætla að skrá lið sín til leiks í karlaflokki og nú bætast Haukar við. FH á einnig rétt á þátttöku í Evrópubikarnum í karlaflokki.


Til viðbótar liggur fyrir að Íslands- og deildarmeistarar KA/Þórs í handknattleik kvenna hyggjast spreyta sig í Evrópudeildinni og karlalið Vals ætlar að vera með í Evrópudeildinni eftir því sem næst verður komist. Valur sendir einnig kvennalið sitt til keppni í Evrópubikarnum.


ÍBV og Fram geta einnig sent lið til keppni í Evrópubikarnum. Þrjú íslensk kvennalið mega vera með og eitt í Evrópudeildinni. Þó getur lið sem á rétt á að taka þátt í Evrópudeildinni óskað eftir að vera frekar með í Evrópubikarnum þar sem ekki eru gerðar eins ríkar kröfur til þátttökuliða og í Evrópudeildinni.

Talsverður kostnaður fylgir þátttöku í Evrópukeppni félagsliða. Á stundum hefur hann staðið í íslenskum félagsliðum eða þá að þau hafi brennt sig fjárhagslega á að vera með.


Þorgeir sagði að í gegnum tíðina hafi Haukum tekist að fjármagna þátttöku sína í Evrópukeppninni m.a. vegna þess að leikmenn hafi alltaf verið mjög viljugir að leggja sitt af mörkum. Hann segir að sama verði upp á teningnum að þessu sinni.

„Leikmenn hafa verið mjög duglegir að leggja sitt af mörkum við að safna fyrir þátttöku í Evrópukeppninni. Á því verður engin breyting á,“ sagði Þorgeir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Hauka í samtali við handbolta.is í dag.

Frestur til að gera upp hug sinn vegna þátttöku í Evrópukeppni félagsliða rennur út á næsta þriðjudag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -