- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Erum reynslunni ríkari – framhaldið er óljóst hjá Díönu

Díana Guðjónsdóttir þjálfari Hauka. Mynd/Olísdeildin
- Auglýsing -

„Við förum reynslunni ríkari út úr þessu tímabili með frábæran hóp og frábært lið,“ sagði Díana Guðjónsdóttir þjálfari Hauka við handbolta.is í gærkvöld eftir að lið hennar tapaði eftir framlengdan oddaleik fyrir ÍBV, 27:23 í Vestmannaeyjum. Haukar féllu þar með naumlega úr leik eftir að hafa velgt deildarmeisturum ÍBV hressilega undir uggum eftir að hafa slegið Fram út í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Munaði um reynsluna

„Í þessum leik fannst mér muna um reynsluna sem er mun meiri hjá ÍBV. Einnig vantaði meira þor í mína leikmenn sem er ósköp eðlilegt í þesssari stöðu gegn mjög sterku liði ÍBV sem hefur á að skipa leikmönnum sem leikið hafa úti sem atvinnumenn og eiga marga leiki með landsliðinu. Þrátt fyrir að markvarslan væri frábær hjá okkur í dag þá var markvörður ÍBV mjög góð og reyndist okkur erfið,“ sagði Díana þegar hún var beðin um að líta snöggt yfir hver munurinn hafi e.t.v. verið á liðunum þegar upp var staðið frá oddaleiknum sem var hnífjafn eins og aðrir leikir ÍBV og Hauka í undanúrslitunum.

Hljóta að stefna enn hærra

„Forráðamenn Hauka hljóta á næsta tímabili að byggja ofan á árangur okkar í vetur. Liðið komst í undanúrslit í bikarnum og í undanúrslit í Olísdeildinni og alla leið í oddaleik gegn deildarmeisturunum. Það þýðir bara eitt, að menn ætla sér meira, stíga einu skrefi lengra,“ sagði Díana en óvíst er þrátt fyrir frábæran árangur að Díana verði verðlaunuð með nýjum samningi hjá Haukum.

Haukar fagna í fjórða leiknum við ÍBV í undanúrslitum Olísdeildar. Mynd/Olísdeildin

Framhaldið er óráðið

„Það er óráðið. Ég verð samningslaus í lok mánaðarins og hugsa minn gang. Frí verður frá æfingum á morgun [í dag] og síðan tekur við æfing hjá þriðja flokki á fimmtudaginn. Úrslitakeppni er að hefjast um helgina. Þegar tímabilinu er lokið velti ég fyrir mér hvað tekur við,“ sagði Díana sem tók við þjálfun Hauka í byrjun mars þegar Ragnar Hermannsson óskaði eftir að verða leystur frá störfum. Díana hafði áður starfað við hlið Ragnars við þjálfun Haukaliðsins á síðasta ári auk þess sem hún vann með Gunnari Gunnarssyni við þjálfun Haukaliðsins í tvö ár þar á undan.

Skemmtilegt ævintýri

„Ég tók við þjálfun Hauka í byrjun mars og var ætlað að vinna út tímabilið. Í lok þessa mánaðar rennur samningur minn út. Hvað þá tekur við er óljóst,“ sagði Díana sem svo sannarlega getur verið stolt af árangri sínum síðustu vikur.

„Undanfarnar vikur hafa verið ótrúlega skemmtilegt ævintýri. Ég tók við með skömmum fyrirvara eftir að Raggi hætti. Ég fékk Dóra [Halldór Ingólfsson] með mér og lærði af honum. Hann þurfti að fara í golfferð til útlanda og þá kom Björgvin [Þór Rúnarsson] inn í teymið. Við náðum vel saman. Svo má heldur ekki gleyma Herberti [Ingi Sigfússon] sem bættist í hópinn með okkur. Ég hef lært mikið af tímabilinu í heild, er sannarlega reynslunni ríkari,“ sagði Díana Guðjónsdóttir handknattleiksþjálfari hjá Haukum í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -