- Auglýsing -
- Auglýsing -

Extra gaman að spila á Ásvöllum

Elín Klara Þorkelsdóttir fagnar sínu fyrsta landsliðsmarki á heimavelli í byrjun nóvember í leik við Ísrael á Ásvöllum. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Það var mjög gaman að fá að taka þátt í leikjunum tveimur á heimavelli. Svo var það alveg extra gaman að spila hér á Ásvöllum, á mínum heimavelli,“ sagði handknattleikskonan unga Elín Klara Þorkelsdóttir í samtali við handbolta.is í gær eftir að hún hafði tekið þátt í tveimur fyrstu A-landsleikjum sínum hér á landi um nýliðna helgi. Elín Klara var fyrst með A-landsliðinu gegn Færeyingum í vináttuleikjum síðustu helgina í október.

Æðislegt að spila í þessari stemningu

„Svo var líka æðislega gaman að spila í þessari stemningu sem var á leikjunum, fullt af áhorfendum og virkilega flott. Ég fékk aðeins lengri tíma í leiknum í dag en í gær og komst þar af leiðandi aðeins betur inn í leikinn og spilið sem var frábært. Mér fannst líka ganga vel hjá mér í dag,“ sagði Elín Klara sem fintaði einu sinni varnarmenn ísraelska liðsins alveg upp úr skónum og skoraði gott mark, hennar fyrsta landsliðsmark á Íslandi. Einnig vann Elín Klara eitt vítakast í gær.

Mikil reynsla og lærdómur

Elín Klara er á meðal allra efnilegustu handknattleikskvenna landsins og var í stóri hlutverki hjá U18 ára landsliðinu sem gerði það gott á HM í Skopje í sumar. Hún segir það vera stórt skref að æfa með A-landsliðinu eins og hún gerði síðustu tvær vikur.

Elín Klara með stöllum sínum í landsliðinu, Andreu Jacobsen, Rakel Söru Elvarsdóttur og Sunnu Jónsdóttur. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

„Þetta er mikil og góð reynsla fyrir mig. Ég hef lært mikið af stelpunum auk þess sem þær og þjálfaranir hafa hjálpað mér mikið,“ sagði Elín Klara sem svo sannarlega lætur þessa nýju reynslu verða sér hvatning til frekari dáða á handknattleikssviðinu.

Held áfram á fullu

„Alveg klárlega. Ég held áfram á fullu. Nú tekur deildin við og síðan setur maður markið á að vera með næst þegar A-landsliðið kemur saman,“ sagði hin dugmikla og efnilega handknattleikskona úr Haukum, Elín Klara Þorkelsdóttir sem m.a. var valin efnilegasti leikmaður Olísdeildar kvenna á síðasta keppnistímabili.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -