Eftir slæman skell á móti Haukum fyrir viku þá sneru leikmenn ÍBV heldur betur við blaðinu í dag þegar þeir skelltu Valsmönnum á sannfærandi hátt í lokaleik 3. umferðar Olísdeildar karla í í Vestmannaeyjum, 28:24.
Eyjamenn tóku öll völd á leikvellinum strax í upphafi og hreinlega kúskuðu leikmenn Vals sem höfðu unnið tvær fyrstu viðureignir sínar í deildinni á sannfærandi hátt þótt andstæðingarnir væri misjafnlega sterkir.
ÍBV var með átta marka forskot í hálfleik, 18:10, og réð lögum og lofum. Þegar síðari hálfleikur var hálfnaður var sex marka munur á liðunum, 23:17. Þótt Valsmönnum tækist að klóra aðeins í bakkann á síðustu mínútunum þá breytti það engu um að annar sigur ÍBV á Val í dag í Olísdeildunum tveimur var staðreynd sem ekki var umflúin.
Ofan á annað þá munaði talsverðu að Petar Jokanovic og Björn Viðar Björnsson voru vel með á nótunum í marki ÍBV meðan harla lítið var að frétta hjá markvörðum Vals.
Theodór Sigurbjörnsson og Hákon Daði Styrmisson skoruðu sex mörk hvor fyrir ÍBV. Kári Kristján Kristjánsson var næstur með fimm mörk.
Magnús Óli Magnússon og Finnur Ingi Stefánsson skoruðu sjö mörk hvor fyrir Val. Eyjamaðurinn Vignir Stefánsson var þar á eftir með fjögur mörk.