- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fantagóður leikur hjá okkur

Leikmenn ÍBV fögnuðu sigri á Ragnarsmótinu í dag. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Seinni hálfleikur var alveg sérstaklega vel leikinn af okkur hálfu, ekki síst í vörninni þar sem við voru mjög þéttir,“ sagði Dagur Arnarsson leikmaður ÍBV í samtali við handbolta.is strax eftir sigurinn á Haukum í kvöld, 34:27, í fjórða og síðasta leik liðanna í undanúrslitum Olísdeildar karla í handknattleik í Vestmannaeyjum.


„Við keyrðum vel á Haukana og tókst á milli að leika fantagóðan sóknarleik og vera skynsamir,“ sagði Dagur.


„Við töpuðum full mörgum boltum í leik þrjú og lögðu mikla áherslu á að bæta úr skák í kvöld og það tókst. Ég er bara mjög ánægður með leikinn og ekki síður úrslitin,“ sagði Dagur sem er orðinn einn af leiðtogum ÍBV-liðsins sem leikur nú til úrslita við Val en hann var einnig í Íslandsmeistaraliði ÍBV fyrir fjórum árum.


Dagur sagði að rík áhersla hafi verið lögð á það í hálfleik að styrkja varnarleikinn ennþá meira í síðari hálfleik. Það skilaði árangri enda skoruðu Haukar aðeins 11 mörk í hálfleiknum. „Við vildum stoppa upp í götin sem voru á vörninni í fyrri hálfleik. Ásgeir Snær var frábær fyrir framan og síðan stjórnaði Róbert vörninni eins og herforingi,“ sagði Dagur.

Markmiðið er að fara alla leið

Eftir níu daga mætast ÍBV og Valur fyrsta sinni í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn. Dagur sagði það verða kærkomna áskorun fyrir ÍBV-liðið að mæta sterkasta liði landsins, Val, sem væri handhafi allra titlana í handbolta karla um þessar mundir.


„Það verður verðugt verkefni fyrir okkur. Markmið okkar verður að fara alla leið og með okkar frábæra fólk í stúkunni með okkur eru allir vegir færir. Við tjöldum öllu til þess að fara alla leið,“ sagði Dagur Arnarsson, leikmaður ÍBV í samtali við handbolta.is í Vestmannaeyjum í kvöld.


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -