Fjögurra marka forskot verður veganesti sem Díana Dögg Magnúsdóttir og samherjar í BSV Sachsen Zwickau fara með til Göppingen á laugardaginn þegar liðin mætast aftur í umspili um sæti í 1. deild á næsta keppnistímabili. BSV Sachsen Zwickau vann fyrri viðureignina á heimavelli í kvöld, 25:21, eftir að hafa verið marki undir að loknum fyrri hálfleik, 14:13.
„Við gerðum alltof marga tæknifeila í fyrri hálfleik. Í síðari hálfleik hægðum við örlítið á okkur þó svo að við héldum áfram að halda uppi hraða. Yfirsýnin var betri,“ sagði Díana Dögg við handbolta.is eftir leikinn í kvöld. Hún skoraði tvö mörk, vann tvö vítaköst, átti 10 stoðsendingar og sjö sköpuð færi. „Ég var ekki alveg upp á mitt besta í fyrri en færðist í aukana í síðari hálfleik,“ sagði Díana Dögg ennfremur.
BSV Sachsen Zwickau hafnaði í næst neðsta sæti 1. deildar á dögunum en Göppingen hreppti annað sæti í 2. deild, stigi á eftir efsta liðinu. Síðari viðureign liðanna verður í Göppingen á laugardaginn og hefst klukkan 16. Samanlögð úrslit leikjanna tveggja sker úr um hvort þeirra tekur sæti í 1. deild á næsta keppnistímabili.
- Auglýsing -