- Auglýsing -
- Auglýsing -

Feðgarnir fögnuðu sigri í Íslendingaslag

Andri Már Rúnarsson leikmaður Leipzig. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Rúnar Sigtryggsson og liðsmenn hans í SC DHfK Leipzig fögnuðu sigri í Íslendingaslag þýsku 1. deildarinnar í handknattleik í dag. SC DHfK Leipzig vann Gummersbach með fimm marka mun, 34:29, á heimavelli sínum, eftir að hafa verið sex mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 17:11.

Andri með þrjú – Viggó fjarverandi

Andri Már Rúnarsson, sonur Rúnars þjálfara, skoraði þrjú mörk fyrir SC DHfK Leipzig, þar af eitt úr vítakasti. Hann átti einnig þrjár stoðsendingar. Viggó Kristjánsson var ekki með vegna meiðsla sem hann varð fyrir í leik á dögunum. Norski landsliðsmarkvörðurinn Kristian Sæverås átti stórleik í marki Leipzig, varði 14 skot, 35%. Þýski landsliðsmaðurinn Luca Witzke var markahæstur með níu mörk og Lukas Binder var næstur með átta mörk.

Elliði Snær með fimm

Elliði Snær Viðarsson skoraði fimm mörk fyrir Gummersbach. Teitur Örn Einarsson var ekki á meðal þeirra sem skoraði að þessu sinni. Hann átti eina stoðsendingu. Milos Vujovic gekk einna besta að skora hjá Sæverås markverði Leipzig. Vujovic skoraði sjö mörk, sex úr vítaköstum, og Lukas Blohmle var næstur með sex mörk. Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari Gummersbach.

Heiðmar og félagar unnu Berlínarrefina

TSV Hannover-Burgdorf gerði sér lítið fyrir og vann Füchse Berlin, 38:35, á heimavelli í dag. Úrslitin teljast nokkuð óvænt þar sem Füchse Berlin hefur ásamt Magdeburg þótt bera af öðrum liðum þýsku 1. deildarinnar undanfarin misseri. Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf.

Þýski landsliðsmaðurinn Renars Uscins, sem sló rækilega í gegn á Ólympíuleikunum, var markahæstur hjá Hannover-Burgdorf með 11 mörk. Justus Fischer var næstur með fimm mörk.

Lasse Bredekjaer Andersson, Mathias Gidsel og Tim Freihöfer skoruðu níu mörk hver fyrir Füchse Berlin.

Uppfært:

Síðar í dag vann THW Kiel meistara SC Magdeburg, 29:24, í Magdeburg. Frábær varnarleikur og markvarsla Andreas Wolff markvarðar í síðari hálfleik lagði grunn að sigrinum. Wolff varði 14 skot, 38%.

Tapið er það fyrsta hjá Magdeburg á heimavelli í nærri tvö ár, eða frá 19. nóvember 2022 þegar liðið tapaði einnig fyrir THW Kiel.

Matthias Musche skoraði átta mörk fyrir Magdeburg sem hefur fjögur stig eftir þrjá leiki eins og THW Kiel og fleiri lið. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði þrjú mörk og gaf sex stoðsendingar og Ómar Ingi Magnússon skoraði einnig þrjú mörk auk þess að gefa þrjár stoðsendingar.

Daninn Emil Madsen heldur áfram að kæta stuðningsmenn THW Kiel. Hann skoraði níu mörk. Hendrik Pekeler, Lukas Zerbe og Eric Johansson skoruðu fjögur mörk hver.

Stöðuna í þýsku 1. deildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -