- Auglýsing -

Fékk rautt spjald fyrir að opna dyr

Aron Rafn Eðvarðsson markvörður Hauka. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Aron Rafn Eðvarðsson, markvörður Hauka, fékk rautt spjald áður en flautað var til síðari hálfleiks í viðureign rúmenska liðsins CSM Focsani og Hauka í Focsani í Rúmeníu.

Skýringin sem gefin var fyrir ákvörðun dómaranna var sú að hinn dagfarsprúði Hafnfirðingur hafi opnað dyr inn í íþróttasalinn á full harkalegan hátt.

Var engu tauti komið við bosnísku dómarana né tyrkneskan eftirlitsmann leiksins sem var stórlega misboðið yfir hversu harkalega Aron Rafn tók í hurðina og gekk um dyrnar.


Aron Rafn sagði í skilaboðum til handbolta.is fyrir stundu að meint atvik hafi átti sér stað í lok fyrri hálfleiks. Þá var hann á leið við fimmta mann um dyrnar út úr salnum á leið til búningsklefa. Hann var hinsvegar sá eini sem fékk rautt spjald.

Aroni Rafni var ekki greint frá ákvörðun dómaranna fyrr en að komið var að því að hefja síðari hálfleik og hann hugðist taka sér stöðu í marki Hauka.


Aron Rafn mátti bíta í það súra epli að taka ekki þátt í leiknum af þessum undarlegu ástæðum sem vart eiga sér hliðstæðu. Hann hafði varið all vel í fyrri hálfleik þegar atvikið átti sér stað.

„Það verður fróðlegt að sjá hvaða skýringu dómarar setja í skýrslu sína,“ sagði Aron Kristjánsson þjálfari Hauka, í samtali við handbolta.is fyrir stundu. Aron sagðist vera furðu lostinn.


Haukar töpuðu leiknum, 28:26, en eiga síðari síðar leikinn eftir á heimavelli eftir viku.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Upptaka af leiknum:

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -