- Auglýsing -
- Auglýsing -

Félögin ákveða fyrirkomulagið, ekki starfsmenn HSÍ

KA/Þór fagnar sigri í Coca Cola-bikarnum 2021. Mynd/HSÍ

Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri Handknattleikssamabands Íslands, segir fyrirkomulag úrslitahelgar Coca Cola-bikarsins vera alfarið í höndum félaganna en ekki HSÍ sem sjái aðeins um framkvæmdina. Rætt hafi verið um það á fundi félaganna sem eiga aðila að undanúrslitum að þessu sinni að breyta fyrirkomulaginu og þétta dagskrána. Eins hafi það verið tekið fyrir á formannafundi. Almennur hljómgrunnur fyrir breytingum að þessu sinni hafi ekki verið fyrir hendi.

Enginn áhugi fyrir sunnudögum

Einnig eru nokkur ár síðan félögin óskuðu eftir því að úrslitaleikir í meistaraflokki karla og kvenna færu alls ekki fram á sunnudegi. Það hafi einu sinni verið reynt og þá með undanúrslitum á föstudegi. Laugardagurinn hafi þá verið nýttur til að leika úrslitaleiki yngri flokkana sem nú dreifast á föstudag og sunnudag.

„Hreinn dónaskapur“

Hörð gagnrýni kom fram í gær í pistli Einars Sigtryggssonar í Morgunblaðinu á keppnisfyrirkomulagið í undanúrslitum og úrslitum keppninnar. Einar segir m.a. að ekki sé gert ráð fyrir að lið af landsbyggðinni nái langt og að það sé „hreinn dóna­skap­ur að setja keppn­ina þannig upp að al­menn­ir stuðnings­menn, sem láta sig ekki vanta á heima­leiki liðsins síns, eigi erfitt með að styðja sitt lið í undanúr­slit­um.“ Um langan veg sé að fara og Akureyringar nánast útilokaðir frá að mæta.


KA leikur til undanúrslita í karlaflokki í kvöld og kvennalið KA/Þórs og ÍBV á morgun. Einar vill að leikið sé á einni helgi og nefnir Þýskaland sem dæmi þar sem undanúrslit og úrslit fara fram á tveimur dögum, á laugardegi og sunnudegi.

Enginn áhugi

Ekki kemur fram hjá Einari að í Þýskalandi eru úrslitahelgarnar tvær, önnur í kvennaflokki og hin í karlaflokki, svo það er ekki alveg saman að jafna. Ekki hefur verið nokkur áhugi fyrir því að sögn Róberts að hafa úrslitahelgarnar tvær, aðra fyrir karla og hina fyrir konur.

Samhljóma ósk um breytingar

„Menn verða aðeins að horfa í söguna,” sagði Róbert í samtali við handbolta.is í gær.

„Það er ekki langt síðan leikið var í nokkur ár til undanúrslita á fimmtudegi og föstudegi og til úrslita á laugardegi. Að fenginni nokkurri reynslu kom fram gagnrýni á það fyrirkomulag frá félögunum vegna þess að leikið væri seint á föstudagskvöldi, sér í lagi þegar leikir voru framlengdir og undirbúningur fyrir úrslitaleik daginn eftir varð enginn. Fram kom samhljóma ósk frá félögunum að breyta fyrirkomulaginu og lengja í keppninni, leika undanúrslit á miðvikudegi og fimmtudegi og úrslit áfram á laugardegi,“ sagði Róbert.

Hagsmunir leikmanna

„Ósk félaganna um að breyta yfir í núverandi leikjafyrirkomulag, það er miðvikudag, fimmtudag og laugardag var mjög eindregin á sínum tíma. Síðan hefur verið haldið við það enda eru þar hagsmunir leikmanna ekki síst hafðir að leiðarljósi. Handboltinn hefur verið gagnrýndur, bæði hér heima og ekki síst erlendis, fyrir að leika of þétt. Fyrir vikið nái leikmenn ekki lágmarks endurheimt og verið sé að leggja heilsu þeirra í hættu,“ segir Róbert og ítrekar að starfsmenn og stjórnendur HSÍ vinni fyrst og fremst eftir því sem félögin vilja.

Útlokað að leika fjóra leiki á einum degi

Róbert segir að eftir að í ljós kom að fleiri lið utan höfuðborgarsvæðisins væru í undanúrslitum að þessu sinni hafi komið til umræðu á meðal félaganna í samtölum við HSÍ og eins á formannafundi hvort hverfa ætti aftur til þess að leika fimmtudag, föstudag og laugardag. Útilokað er að leika fjóra undanúrslitaleiki á einum degi.

Áfram til umræðu

„Það var ekki eindregin vilji til þess innan hreyfingarinnar að fara til baka og því tóku félögin þá ákvörðun halda óbreyttri stefni en áfram að velta vöngum hvort hverfa eigi aftur til fyrra fyrirkomulags,“ sagði Róbert sem gefur ekkert fyrir gagnrýni um að fyrirkomulag úrslitahelgarinnar sé einhliða ákvörðun starfsmanna HSÍ eða stjórnar.


„Okkar hlutverk er að endurspegla vilja félaganna hverju sinni og halda utan um framkvæmdina,“ sagði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -