- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Fer beint af bekknum í leik í Meistaradeildinni“

Arnór Snær Óskarsson í leik með Val fyrir 2 árum. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -


„Það er mikill léttir að samningar séu í höfn,“ sagði Arnór Snær Óskarsson handknattleiksmaður glaður í bragði þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans eftir að opinberaður var samningur Arnórs Snæs við norska meistaraliðið Kolstad til eins og hálfs árs. Arnór Snær hefur verið í herbúðum Rhein-Nekcar Löwen í hálft annað ár en fá tækifæri fengið í vetur.

Búinn með þann pakka

„Ég er búinn með þann pakka að sitja á bekknum og fá einhverjar ruslmínútur í lok leikja. Ég hef sýnt að ég er kominn lengra en það á handboltavellinum,“ sagði Arnór Snær einnig en hann stekkur beint inn í lið Kolstad og verður gjaldgengur strax á miðvikudagskvöldið í heimaleik við ungverska liðið Pick Szeged í Meistaradeild Evrópu.

Er það ekki draumi líkast?

„Maður fer beint af bekknum í leik í Meistaradeildinni. Er það ekki draumi líkast? Ég held það bara,“ sagði Arnór Snær sem hlakkar til nýrra ævintýra hjá Kolstad. „Fyrst og fremst er ég bara þakklátur fyrir að fá að spila aftur í stað þess að æfa og sitja svo á bekknum.“

Sjá einnig: Arnór Snær hefur samið við norsku meistarana

Kemur fyrr en til stóð

Aðdragandinn að samningi Arnórs Snæs við Kolstad hefur verið nokkur auk þess sem fleiri félög sýndu honum áhuga. Um tíma kom til greina að hann gengi til liðs við Kolstad í janúar á næsta ári. Síðan kom skyndilega símtal þar sem honum var sagt að koma ekki seinna en nú þegar.

„Þetta var eins og suða í potti, allt í einu lyftist lokið og suðan kom upp. Það er bara geggjað að þeir [forsvarsmenn Kolstad] ákváðu að slá til strax í stað þess að bíða fram í janúar. Kolstad vantaði mann strax sem getur leikið hægra megin. Liðið er bara með einn mann í hægri skyttu stöðunni og komið var að þeim tímapunkti að hann var búinn að fá nóg, varð að fá mann með sér til að dreifa álaginu.“

Kom til Þrándheims í nótt

Arnór Snær kom til Þrándheims í nótt og hefur þegar lokið einni æfingu með nýjum samherjum. Hann fer í læknisskoðun í fyrramálið. Félagaskiptin eru gengin í gegn og upplýsingar sendar til Handknattleikssambands Evrópu svo hann verður gjaldgengur á miðvikudaginn gegn Pick Szeged. Þegar hafa selst á fimmta þúsund aðgöngumiðar á viðureignina.

„Hann hleypti mér inn, sem betur fer

Arnór Snær býr hjá bróður sínum, Benedikt Gunnari, að minnsta kosti til að byrja með. „Hann hleypti mér inn, sem betur fer. Við sjáum til hvort hann hendir mér út þegar ég fer að tuða í honum,“ sagði Arnór Snær léttur í bragði og fullur eftirvæntingar yfir að fá tækifæri til þess að leika með yngri bróður sínum. Saman léku þeir hjá Val þegar liðið var upp á sitt besta og varð meistari 2022.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -