- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fer hluti HM karla 2029 eða 2031 fram hér á landi?

HSÍ hefur lýst yfir áhuga á að halda HM karla í handknattleik að hluta til hér á landi. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Handknattleikssamband Ísland, HSÍ, hefur ásamt handknattleikssamböndum Danmerkur og Noregs sent inn óformlegt boð um að verða gestgafi heimsmeistaramótsins í handknattleik karla 2029 eða 2031. Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ staðfesti þetta í samtali við handbolta.is.

„Við erum saman með Dönum og Norðmönnum í boði sem lagt hefur verið inn til IHF um að halda HM karla 2029 eða 2031. Ekki er um bindandi boð að ræða af hálfu landanna þriggja, enn sem komið er, en segja má að við höfum stigið fyrsta skrefið til að láta vita af okkur,” sagði Guðmundur.

Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ t.h. ásamt forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni á landsliðsleik í Laugardalshöll í mars. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Færst hefur í vöxt á síðari árum að tvö eða þrjú lönd sameinist um að halda stórmót A-landsliða í handknattleik karla og kvenna.

Átta lið

Hugmyndin er sú að ef löndin þrjú láti slag standa og sæki formlega um og hreppi hnossið þá fari fram hér landi keppni í tveimur riðlum á fyrsta stigi mótsins auk keppni í einum milliriðli. Hingað til lands verða þá væntanleg sjö landslið. Íslenska landsliðið verður það áttunda. Það er fjórðungur keppnisliða. Héðan færu tvö lið áfram í átta liða úrslit sem leikin yrðu annað hvort í Danmörku eða Noregi.

Fleiri hafa áhuga

Vonast samböndin þrjú til, ef af bindandi umsókn verður að í þeirra hluti komi annað hvort mótið, 2029 eða 2031. Hermt er að Sádi Arabía hafi einnig í hyggju að sækja um annað hvort mótið. Á þessari stundu er ekki vitað um fleiri hugsanlegar umsóknir enda nokkuð í að formlegur umsóknarfrestur rennur út.

Uppfyllum skilyrðin með Þjóðarhöll

Með nýrri þjóðarhöll í Laugardal, sem fyrirhugað er að opnuð verði 2025, mun Ísland uppfylla öll skilyrði sem gerð eru til keppnishúsa í riðla- og milliriðlakeppni á heimsmeistaramóta í handknattleik karla og kvenna.

HM karla í handknattleik fer fram næst árið 2025 í Króatíu, Danmörku og Noregi og tveimur árum síðar í Þýskalandi.

Margt breyst frá 1995

HM karla var haldið hér á landi í maí 1995 og þá öll keppnin frá upphafi til enda. Margt hefur breyst í umfangi keppninnar síðan þá auk þess sem frændþjóðir okkar, Danir og Norðmenn, eru orðnar afar sjóaðir í að halda stórmót. Víst er að með samvinnu við ríkin tvö verður mögulegt að læra af þeirra reynslu auk þess sem bæði kostnaður og hugsanlega tekjur deilast á fleiri herðar.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -