- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fer til Minden í annarri tilraun – rétt skref á ferlinum

Bjarni Ófeigur Valdimarsson leikur ekki fleiri leiki með GWD Minden. Mynd/GWD Minden
- Auglýsing -

„Forráðamenn Minden reyndu að fá mig til félagsins í október á síðasta ári þegar meiðsli herjuðu á leikmannahóp liðsins. Stjórnendur Skövde tóku það ekki til greina en sambandið rofnaði ekki. Þess vegna má segja að það hafi átt sinn aðdraganda að ég samdi við GWD Minden,“ sagði handknattleiksmaðurinn Bjarni Ófeigur Valdimarsson þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans. Bjarni Ófeigur samdi á dögunum við þýska 1. deildarliðið GWD Minden til tveggja ára. Samningurinn tekur gildi í sumar.

Spenntur fyrir nýrri áskorun

„Til viðbótar þá dró það ekki úr áhuga mínum að Alli [Aðalsteinn Eyjólfsson] tekur við þjálfun Minden-liðsins í sumar. Það er stór plús. Ég er bara mjög spenntur fyrir að breyta til og takast á við nýja áskorun á handboltavellinum,“ sagði Bjarni Ófeigur sem er langt kominn með þriðja keppnistímabilið sitt með Skövde. Liðið lék til úrslita um sænska meistaratitilinn í fyrra og í hitteðfyrra en varð að sætta sig við silfurverðlaun í bæði skiptin.

Hefur verið markmiðið

„Það var markmið mitt eftir nokkur ár í Svíþjóð að stíga skref yfir til Þýskalands. Ég held að það sé skynsamlegt næsta skref á mínum ferli,“ sagði Bjarni Ófeigur sem gekk til liðs við IFK Skövde í nóvember 2020 meðan keppni í handknattleik lá niðri hér á landi vegna kórónuveirunnar. Á sama tíma var ekkert slegið af í Svíþjóð og Bjarni gekk undir eins inn í lið IFK Skövde og tók til óspilltra málanna að leika með því í úrvalsdeildinni.

Flestir til Þýskalands

„Þeir mega eiga það Svíarnir að vera öflugir í að flytja út leikmenn, ekki síst til Þýskalands. Ég hef tekið eftir því að á þeim þremur árum sem ég hef verið hér ytra að það fara nokkrir leikmenn á hverju tímabili til Þýskalands. Algengara er að þeir farið þangað en til dæmis til Frakklands eða Danmerkur,“ sagði Bjarni Ófeigur sem telur sænsku úrvalsdeildina vera ágætt millistökk fyrir handknattleiksmenn sem vilja þróast og fara síðan áfram í þýsku 1. deildina.

Sænski skólinn er öflugur

„Mér hefur gengið vel í Svíþjóð og hef mikið lært af sænska handknattleiksskólanum sem hefur leitt til töluverðra framfara, þótt ég segi sjálfur frá. Nú finnst mér vera kominn tími til þess að takast á við nýja áskorun í öðru umhverfi, halda áfram að þróast sem leikmaður,“ sagði Bjarni Ófeigur ennfremur.

Bjarni Ófeigur lauk BA námi í lögfræði meðan hann hefur verið í Svíþjóð. Nú tekur hann áfanga í Mastersnámi. „Ég reyni að tína inn áfanga jafnt og þétt með handboltanum. Maður hefur ágætan frítíma á milli æfinga og leikja. Þar af leiðandi er skynsamlegt að nýta tímann sem best,“ sagði Bjarni Ófeigur.

Bjarni Ófeigur segir að töluverðar breytingar hafi átt sér stað á þeim árum sem hann hefur verið hjá IFK Skövde.

Duglegir að sækja efnilega leikmenn

„Þetta hefur verið venjan hér í Skövde í gegnum tíðina. Forráðamenn félagsins hafa verið duglegir að fá til sín leikmenn sem eru ungir og efnilegir, byggja þá áfram upp. Hinsvegar hefur gengið verr að halda í þá til lengri tíma svo að mögulegt sé að byggja upp sterkt lið til einhverra ára,“ sagði Bjarni og bendir á að þegar hann og annar til kveðji í vor verði allt byrjunarliðið sem lék úrslitaleikina við Ystads um sænska meistaratitilinn vorið 2022 róið á önnur mið.

Ekki með sama styrk og IFK Kristianstad

„IFK Skövde býr ekki við jafn góða fjárhagsstöðu og til dæmis IFK Kristianstad sem getur stundum boðið mönnum að koma heim og leika fyrir svipuð laun og þeir hafa í Þýskalandi eða vera um kyrrt fyrir góð laun.“

Fyrir er hjá GWD Minden Sveinn Jóhannsson. Eins áður segir tekur Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfari Kadetten Schaffhausen í Sviss við þjálfun Minden-liðsins í vor. Nokkuð margir Íslendingar hafa leikið með GWD Minden í gegnum tíðina. Má þar m.a. nefna Axel Axelsson, Ólaf H. Jónsson, Jón Pétur Jónsson, Sigurð Bjarnason, Patrek Jóhannesson, Snorra Stein Guðjónsson, Einar Örn Jónsson, Gylfa Gylfason, Ingimund Ingimundarson og Vigni Svavarsson.

Breytingar komið niður á árangri

Skövde situr í 6. sæti og hefur ekki verið á sama flugi á tímabilinu og undanfarnar tvær leiktíðir. „Það eru aðeins tveir eftir af byrjunaliði á síðasta tímabili, ég og annar hornamaðurinn. Við höfum verið í ströggli í vetur við að stilla saman strengina með nýjum mönnum. Vonandi komum við af krafti inn í úrslitakeppnina í næsta mánuði,“ sagði Bjarni Ófeigur Valdimarsson leikmaður IFK Skövde í Svíþjóð og væntanlegur liðsmaður þýska liðsins GWD Minden.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -