- Auglýsing -
- Auglýsing -

FH-ingar voru alltof sterkir fyrir Þórsara

Gytis Smantauskas reyndist Þórsurum erfiður í síðari hálfleik. Hér freistar Jóhann Einarsson, Þórsari, að koma böndum á Litáan. Mynd/Skapti Hallgrímsson, Akureyri.net
- Auglýsing -

FH mætir Val í undanúrslitum Coca Cola-bikars karla í handknattleik á Ásvöllum miðvikudaginn 9. mars. Það liggur fyrir eftir öruggan sigur FH-inga á Þór Akureyri, 33:22, í viðureign liðanna í Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld. FH-ingar voru með yfirhöndina frá upphafi til enda, m.a. var fjögurra marka munur, 15:11, að loknum fyrri hálfleik.


Segja má að Þórsarar hafi aldrei vafist fyrir gestum sínum að þessu sinni. FH-ingar töku völdin á leikvellinum strax í upphafi. Þeir gáfu tóninn með þremur fyrstu mörkunum og fjórum af þeim fyrstu fimm. Mestur var munurinn 13:6 upp eftir miðjan síðari hálfleik. Þá kom ágætur kafli hjá Þór fram að hálfleik. Ekki síst má þakka hann góðum leik Arnars Þórs Fylkissonar markvarðar og öflugum varnarleik.

Þórsarinn Aðalsteinn Ernir Bergþórsson var markahæstur Þórsara með átta mörk. Hér gefur hann Gytis Smantauskas gaum. Ísak Rafnsson, FH-ingur, lyftir höndum í sakleysi sínu. Mynd/Skapti Hallgrímsson, Akureyri.net


FH-liðið skoraði þrjú fyrstu mörk síðari hálfleiks. Þór svaraði með fjórum. Eftir það féll heimamönnum allur ketill í eld. Munurinn á toppliði í Olísdeild karla og Grill66-deild karla kom skýrt í ljós. FH-ingar lásu einhæfan sóknarleik Þórs eins opna bók og juku muninn jafnt og þétt allt til leiksloka.

FH-ingurinn Ásbjörn Friðriksson og Tomislav Jagurinovski, Þórsari. Jóhann Einarsson fylgist með að baki þeim. Mynd/Skapti Hallgrímsson, akureyri.net


Mörk Þórs: Aðalsteinn Ernir Bergþórsson 8, Heimir Pálsson 4, Viðar Ernir Reimarsson 3, Josip Kezic 3, Tomislav Jagurinovski 1, Jóhann Einarsson 1, Garðar Már Jónsson 1, Halldór Yngvi Jónsson 1.

Mörk FH: Einar Örn Sindrason 6, Gytis Smantauskas 4, Ásbjörn Friðriksson 4, Phil Döhler 4, Birgir Már Birgisson 4, Ágúst Birgisson 3, Jakob Martin Ásgeirsson 2, Eiríkur Guðni Þórarinsson 2, Egill Magnússon 1, Jón Bjarni Ólafsson 1, Ísak Rafnsson 1, Jóhann Birgir Ingvarsson 1.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -