Danska meistaraliðið Esbjerg vann Aarhus United, sem íslenska landsliðskonan Thea Imani Sturludóttir leikur með, 25:20, í Árósum í kvöld í níundu umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik. Esbjerg, sem var þremur mörkum yfir í hálfleik, 13:10, náði með sigrinum að endurheimta efsta sæti deildarinnar. Esbjerg er stigi fyrir ofan Viborg sem á leik til góða.
Thea Imani náði ekki að skora í leiknum, hún átti eina stoðsendingu og markskot hennar voru þrjú.
Matthilde Neesgaard og Annika Meyer skoruðu fjórum sinnum hvor fyrir Árósarliðið sem er í sjöunda sæti deildarinnar með níu stig að loknum níu leikjum.
Marit Freifjord og Kristine Brestöl skoruðu sjö mörk hvor fyrir Esbjerg. Markvörðurinn Rikke Marie Granlund fór á kostum í markinu. Hún varði 17 skot sem geri 46% hlutfallsmarkvörslu.
Önnur úrslit:
Silkeborg – Odense 18:28
Horsens – NFK Nyk 20:22
Staðan í dönsku úrvalsdeild kvenna.