- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fimmtíu leikir í röð án taps

Alexander Petersson er inn reynslumesti Íslendingurinn sem leikið hefur í Þýskalandi. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Flensburg, liðið sem Alexander Petersson leikur með, lék í dag sinn 50. heimaleik í röð án taps í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Lið Ludwigshafen var 50. fórnarlamb hins sterka liðs Flensburg, lokatölur, 35:29. Alexander skoraði ekki mark í leiknum en átti tvær stoðsendingar.
Flensburg er sem fyrr í efsta sæti deildarinnar með 44 stig eftir 24 leiki og er stigi á undan THW Kiel.

Svíinn Jim Gottfridsson fór enn einu sinni á kostum í liði Flensburg. Hann skoraði níu mörk í tíu skotum. Þrjú marka sinna skoraði Svíinn úr vítaköstum. Hann átti einnig fimm stoðsendingar.


Flensburg tapaði síðast á heimavelli í þýsku 1. deildinni 10. desember 2017 fyrir Kiel. Metið í deildinni á Wallau Massenheim sem lék 64 leiki í röð á heimavelli án taps á árunum 1991 til 1996. Kiel er þar á eftir með 58 leiki án þess að tapa frá 2007 til 2011.


Oddur Gretarsson og samherjar í Balingen-Weilstetten unnu einkar mikilvægan sigur í kjallarabaráttu deildarinnar er þeir lögðu leikmenn Tusem Essen á heimavelli, 31:28, eftir að hafa verið tveimur mörkum yfir í hálfleik, 12:10. Oddur skoraði fjögur mörk, þar af þrjú úr vítaköstum.
Eftir sigurinn er fjögurra stiga munur á Balingen-Weilstetten í 16. sæti og Ludwigshafen og Nordhorn sem eru næst fyrir neðan með 13 stig hvort. Liðin sem hafna í 17.- 20. sæti falla úr deildinni í vor. Alls verða leiknar 38 umferðir svo það er nokkuð eftir ennþá.


Melsungen, liðið sem Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfar og Arnar Freyr Arnarsson leikur með, stöðvaði ekki Kiel á heimavelli í dag fremur en flest öll lið deildarinnar. Stjörnum prýtt lið meistaranna fór með sex marka sigur úr heimsókn sinni til Melsungen, 32:26, eftir að hafa haft þriggja marka forskot þegar fyrri hálfleikur var að baki, 15:12.
Arnar Freyr skoraði eitt mark í leiknum. Kai Häfner var markahæstur hjá Melsungen með sjö mörk. Niclas Ekberg skoraði níu fyrir Kiel og Domagoj Duvnjak sjö.


Önnur úrslit dagsins:
Hannover-Burgdorf – Wetzlar 25:24
Nordhorn – GWD Minden 20:22
Staðan, stig, fjöldi leikja innan sviga:
Flensburg 44(24), Kiel 43(24), Rhein-Neckar Löwen 40(27), Magdeburg 38(25), Göppingen 34(24), Füchse Berlin 29(25), Wetzlar 28(26), Bergischer HC 27(24), MT Melsungen 25(23), Leipzig 25(25), Lemgo 24(22), Erlangen 22(23), Stuttgart 21(26), Hannover-Burgdorf 20(25), GWD Minden 18(26), Balingen-Weilstetten 17(27), Ludwigshafen 13(26), Nordhorn 13(27), Essen 11(26), Coburg 8(25).

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -