Íslendingaliði IFK Kristianstad tapaði í kvöld sínum öðrum leik í röð í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik þegar það sótti Lugi heim til Lundar. Lokatölur 33:29 fyrir Lugi sem var marki yfir að loknum fyrri hálfleik.
IFK Kristianstad situr í sjöunda sæti með 22 stig eftir 21 leik og er 13 stigum á eftir IFK Ystads sem trónir á toppi deildarinnar. Til þessa hefur tímabilið verið vonbrigði fyrir Kristianstad liðið sem varð deildarmeistari á síðustu leiktíð. Þjálfaraskipti voru í desember en þau hafa litlu skilað enn sem komið er.
Teitur Örn Einarsson skoraði fimm mörk í 14 skotum fyrir Kristianstad í kvöld. Einnig átti hann tvær stoðsendingar. Ólafur Andrés Guðmundsson, fyrirliði náði sér heldur ekki á strik. Hann skoraði þrjú mörk í níu skotum en átti reyndar fjórar stoðsendingar.
- Auglýsing -