- Auglýsing -

Fjölnir er kominn upp að hlið ÍR

Góði Ingvar Sveinsson, leikmaður Fjölnis, sækir að vörn Vængjanna en hyggst senda að á Aðalstein Aðalsteinsson samherja sinn. Mynd/Þorgils G - Fjölnir

Fjölnir komst í gærkvöld upp að hlið ÍR í Grill66-deild karla með sigri á Vængjum Júpíters, 34:28, í Dalhúsum. Fjölnismenn voru sjö mörkum yfir í hálfleik, 20:13. Sigur þeirra var aldrei í hættu þótt Vængir hafi veitt eins harða mótspyrnu og þeim var unnt.


Eftir sigurinn í gærkvöld hefur Fjölnir 24 stig að loknum 15 leikjum eins og ÍR-inga. Þeir áttu að mæta ungmennaliði Hauka. Engum sögum fer af þeirri viðureign, hvorki að hún hafi farið fram né að henni hafi verið frestað.

Uppfært kl. 10.20: Leikurinn ÍR og Hauka U fór fram. Um leikinn er fjallað hér.

Glaðbeittir leikmenn Fjölnis þegar sigurinn var í höfn í gærkvöld. Mynd/Þorgils G – Fjölnir


Fjölnir vann ÍR í miklum markaleik í Austurbergi fyrr í vikunni, 38:35, eins og áður hefur verið greint frá. Engu að síður stendur Fjölnir höllum fæti gagnvart ÍR í innbyrðisleikjum. ÍR vann fyrri viðureignina með sjö marka mun.


Hörður er tveimur stigum á eftir ÍR og Fjölni og á auk þess leik til góða. Þór Akureyri getur líka blandað sér í slaginn á toppnum enda ekki langt á eftir liðunum þremur, ÍR, Fjölni og Herði.


Aðalsteinn Aðalsteinsson fór mikinn í liði Fjölnis í gær. Hann skoraði 11 mörk.
Gleðlilegt var að sjá að áhorfendur mættu vel á leikinn en loksins eru engar hindranir fyrir komu þeirra á kappleiki Íslandsmótsins.

Nærri 200 áhorfendur lögðu leið sína á leik Fjölnis og Vængja Júpíters í gærkvöld. Mynd/Þorgils G – Fjölnir


Mörk Fjölnis: Aðalsteinn Aðalsteinsson 11, Björgvin Páll Rúnarsson 6, Goði Ingvar Sveinsson 6, Óðinn Freyr Heiðmarsson 6, Veigar Snær Sigurðsson 3, Alex Máni Oddnýjarson 2.

Mörk VJ.: Gísli Steinar Valmundsson 6, Leifur Óskarsson 5, Viktor Orri Þorsteinsson 5, Albert Garðar Þráinsson 4, Guðmundur Rögnvaldsson 2, Hlynur Már Guðmundsson 2, Ragnar Áki Ragnarsson 2, Brynjar Jökull Guðmundsson 1, Gunnar Valur Arason 1.

Stöðu og næstu leiki í Grill66-deild karla er að finna hér.

Margar myndir frá leiknum er að finna á Facebooksíðu Fjölnis handbolta. Þorgils ljósmyndari Fjölnis var á leiknum eins og oftast nær.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -