- Auglýsing -
- Auglýsing -

Formaður HSÍ: Held að ekki verði aftur snúið úr þessu

Vonir standa til að þjóðarhöll fyrir innanhúss íþróttir verði vígð í árslok 2027 eða snemma árs 2028. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Ég er mjög ánægður með að málið sé komið svona langt. Ferillinn hefur verið langur,“ sagði Guðmundur B. Ólafsson formaður Handknattleikssambands Íslands (HSÍ) við handbolta.is í dag á blaðamannafundi sem haldinn var í tilefni þess að auglýst hefur verið eftir umsækjendum vegna forvals fyrir samkeppnisútboð um hönnun og byggingu þjóðarhallar í Laugardal. Guðmundur segist vera handviss um að héðan sé ljóst að þjóðarhöll rísi hér á landi innan nokkurra ára.

Verklok 2027 eða 2028

Rammi framkvæmdaáætlunar var kynntur á fundinum í Laugadal í dag. Fram kom í máli Jóns Arnórs Stefánssonar formanns stjórnar Þjóðarhallar ehf að áætluð verklok þjóðarhallar séu í árslok 2027 eða í síðasta lagi snemma árs 2028.

Vonir standa til þess að framkvæmdir hefjist með fyrstu skóflustungu á næsta ári eða í allra síðasta lagi snemma árs 2026. Kostnaðaráætlun frá síðla árs 2022 gerir ráð fyrir að kostnaður við bygginguna sé 15 milljarðar króna.

Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ t.h. ásamt forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni á landsliðsleik í Laugardalshöll á síðasta ári. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

HSÍ, undir forystu Guðmundar, hefur lengi þrýst á byggingu þjóðarhallar enda er það helsta forsenda þess að Ísland geti tekið þátt í umsókn um að halda HM karla 2029 eða 2031 í samvinnu við Dani og Norðmenn. Auk þess er Laugardalshöll barn síns tíma og alþjóðlegir handboltaleikir fara þar fram á undanþágu og hafa gert um mjög langt árabil.

Lilja ýtti málinu úr vör

„Lilja Alfreðsdóttir ýtti málinu úr vör á sínum tíma þegar hún lét gera skýrslu þar sem tekin var út staðsetning, stærð hallarinnar og ýmis atriði sem unnið hefur síðan verið út frá. Lilja tók þann bolta áfram. Ásmundur Einar Daðason hefur síðan verið mjög duglegur eftir að hann tók við málinu í sínu ráðuneyti og allir ríkisstjórnarflokkarnir verið inni á þessari hugmynd. Auðvitað hafa ríkisfjármálin verið stærsti liðurinn í þessu máli og hvernig fjármunum ríkisins er forgangsraðað.

Ég er gríðarlega ánægður með að þessi ákvörðun hefur verið tekin, það er að efna til forvals og síðar byggingar þjóðarhallar. Ég held að ekki verði aftur snúið úr þessu,“ sagði Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ í samtali við handbolta.is í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -