„Markmiðið í dag var að komast í undanúrslit og það náðist. Við erum hinsvegar alls ekki hættir núna. Næst er fara út á hótel og safna kröftum fyrir undanúrslitin á laugardaginn. Við förum af fullum krafti í næsta leik,“ sagði Andri Már Rúnarsson sem átti eins og fleiri stórleik í dag. Hann átti enn einn stórleikinn í sókninni og var útsjónarsamur í varnarleiknum.
Frammistaða íslenska liðsins í síðari hálfleik í dag verður lengi í minnum höfð. Liðið skoraði 20 mörk og lék þar á ofan frábæran varnarleik með Brynjar Vigni Sigurjónsson í ham í markinu.
Þrifumst á stemningunni
„Við vorum þungir og andlausir í fyrri hálfleik. Okkur tókst að snúa við blaðinu strax í síðari hálfleik. Náðum fram þessari svokölluðu íslensku geðveiki og fengum áhorfendur með okkur. Frábær mæting hjá okkar fólki sem lét sitt ekki eftir liggja. Þar með small allt hjá okkur. Sóknarleikurinn var frábær og við þrifumst á þessari stemningu í vörninni. Það hjálpaði Binna í markinu. Hraðaupphlaupsmarkvarslan hjá honum var á við tvö til þrjú mörk.
Við lékum ekki flókin kerfi í síðari hálfleik, bara einn júggi og síðan var spilað út úr honum. Gerðum það bara frábærlega. Steini var magnaður eins og reyndar allir í liðinu,“ sagði Andri Már Rúnarsson í samtali við handbolta.is í Berlín í dag.