- Auglýsing -
- Auglýsing -

Förum með sjálfstraust inn á HM

Arnór Þór Gunnarsson, Janus Daði Smárason, Bjarki Már Elísson og Björgvin Páll Gústavsson fagna undir leikslok í kvöld. Mynd/Guðmundur Lúðvíksson
- Auglýsing -

„Það er mikilvægt fyrir okkur að finna að við getum náð vel saman þótt það vanti menn í liðið hjá okkur. Við erum með lið sem hefur fullt af góðum leikmönnum. Það sýndum við í kvöld,“ sagði Bjarki Már Elísson, markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins í stórsigri á Portúgal í undankeppni EM í handknattleik í Schenker-höllinni á Ásvöllum, 33:23.


„Þessi sigur er gott veganesti inn í framhaldið þar sem við mætum Portúgal meðal annars strax á fimmtudaginn á HM í Egyptalandi. Við förum með sjálfstraust inn í þá viðureign,” sagði Bjarki Már sem tók undir með blaðamanni að framan af fyrri hálfleik var útlitið ekki gott hjá íslenska landsliðinu. Það lenti fimm mörkum undir, 12:7, og virtist allar bjargir vera bannaðar.

„Það er engin ástæða til að fara í grafgötur með að framan af leik leit leikur okkar mjög illa út. Hreinlega skelfilegt. En það var karakter hjá okkur að snúa taflinu við. Það var sérstaklega mikilvægt að ná að snúa blaðinu við fyrir hálfleikinn þótt við værum einu undir þegar farið var inn í búningsklefa. Það var betra en að vera fimm mörkum undir. Síðan var síðari hálfleikur alveg frábær. Nú erum við komnir í sterka stöðu að vinna riðilinn,” sagði Bjarki Már.

Maður sleppir svona löguðu

Bjarki Már skoraði níu mörk úr tíu skotum. „Ég er sáttur við nýtinguna í kvöld en var ekki eins ánægður með mig eftir fyrri leikinn. Þá fór ég að minnsta kosti með tvö færi sem ég vildi gera betur með. Síðan hef ég farið með það á koddann á hverju kvöldi. Maður sleppir svona löguðu ekki svo auðveldlega úr kollinum á sér. Gott að geta gert mikið betur í kvöld,” sagði Bjarki Már Elísson, hornamaður íslenska landsliðsins í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -