- Auglýsing -
- Auglýsing -

Frábær áfangi eftir að blikur höfðu verið á lofti

Ágúst Elí Björgvinsson markvörður danska úrvalsdeildarliðsins KIF Kolding og íslenska landsliðsins. Mynd/Mummi Lú
- Auglýsing -

„Þetta er frábær áfangi sem ekki var endilega reiknað með að við myndum ná eins og staðan var á síðasta sumri þegar nokkur óvissa ríkti innan félagsins,“ sagði Ágúst Elí Björgvinsson, landsliðsmarkvörður og leikmaður danska úrvalsdeildarliðsins KIF Kolding sem hefur tryggt sér sæti í átta liða úrslitum um danska meistaratitilinn í handknattleik.


Eins og Ágúst Elí segir þá voru blikur á lofti hjá Kolding á síðasta sumri þegar hann kom til félagsins. Fjárhagslega stóð félagið höllum fæti og nokkur uppstokkun hafði orðið á leikmannahópnum m.a. af þeim sökum.

Vörn snúið í sókn

„Okkur tókst að snúa vörn í sókn og púsla saman góðu liði sem gat veitt flestum liðum deildarinnar samkeppni. Við stríddum betri liðunum og unnum þau sem voru lakari og áttum í fullu tré við liðin sem voru á svipuðu róli og við. Þar af leiðandi erum við sáttir með árangur tímabilsins og að ná inn í átta liða úrslitin er flottur áfangi,“ sagði Ágúst Elí ennfremur.

Hann samdi við Kolding snemma á síðasta ári og flutti yfir til Jótlands á liðnu sumri eftir tveggja ára veru hjá Sävehof í Svíþjóð þar sem hann varð m.a. sænskur meistari vorið 2019.

Réttu skútuna af

Ágúst Elí segir að nokkur óvissa hafi ríkt hjá Kolding þegar hann kom til liðsins á síðasta sumri. Fljótlega hafi hinsvegar komið vösk sveit manna að stjórn félagsins og náð að rétta skútuna af og stefna henni inn á rétta siglingaleið. „Nú er allt í góðu lagi og menn eiga hrós skilið.“

„Ég er ánægður hér og hef bætt mig talsvert, bæði andlega og líkamlega sem markvörður“


„Okkur tókst að leika marga leiki afar vel en einnig voru klaufaleg töp inn á milli eins og gengur en niðurstaðan er góð og afar jákvæð fyrir félagið. Á stundum hefur hópurinn verið þunnskipaður vegna meiðsla eins og til dæmis um þessar mundir. Þeir sem hafa getað spilað hafa lagt sig þeim mun meira fram,“ segir Ágúst Elí sem hefur tekið þátt í öllum leikjum tímabilsins enda ekki misst úr leik í meistaraflokki á ferlinum vegna meiðsla.

Ágætt markvarðateymi

„Ég og Tim Winkler kollegi minn skiptum leikjunum á milli okkar og höfum myndað ágætt markvarðateymi,“ segir Ágúst Elí en samkvæmt tölfræði samantekt á heimasíðu úrvalsdeildarinnar er hann með 29,6% hlutfallsmarkvörslu á leiktíðinni. Ef vítaköstum er sleppt er hlutfallið 31,3%. Fyrrgreindur Winkler er einu prósentustigi hærri en Ágúst Elí.

Ágúst Elí Björgvinsson í leik með Kolding í haust. Mynd/Jón Oddur


Lokaumferð dönsku úrvalsdeildarinnar fer fram á páskadag. Fljótlega eftir það hefst úrslitakeppnin sem að vanda verður leikin í tveimur fjögurra liða riðlum eins og siður hefur verið í Danmörku til nokkuð margra ára.

Meiri karlabolti

Ágúst Elí segist kunna vel við sig í Danmörku fyrir utan gæðin í leiknum séu meiri en í Svíþjóð þar sem hann var áður. „Það er meiri karlabolti í Danmörku. Ég er ánægður hér og hef bætt mig talsvert, bæði andlega og líkamlega sem markvörður. Ég verð sífellt sannfærðari um að það var rétt skref hjá mér að fara yfir til Danmerkur. Um leið vonast ég til að taka enn meiri framförum á næstu árum,“ segir Ágúst Elí Björgvinsson, markvörður, sem er með samning við Kolding út leiktíðina vorið 2022.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -