- Auglýsing -
- Auglýsing -

Frábært að vera kominn í þessa stöðu

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, og leikmenn hans í stóðu sig afar vel gegn Lemgo. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

„Það er frábært að vera kominn í þá stöðu að fá tækifæri til þess að máta sig við lið eins og Lemgo. Það er nauðsynlegt og gott fyrir okkur,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Íslandsmeistara Vals, í samtali við handbolta.is í morgun eftir að Valur dróst gegn þýsku bikarmeisturunum Lemgo í annarri umferð Evrópudeildarinnar í handknattleik.


„Persónulega hefði ég viljað mæta öðru hvoru liðinu sem ég lék með á sínum tíma, Rhein-Neckar Löwen eða Nimes, en það hefði nú bara verið meira fyrir mig,“ sagði Snorri Steinn léttur í bragði.

Leikið heima og að heiman

Fyrri leikurinn verður í Origohöll Valsmanna þriðjudaginn 21. september sá síðari á heimavelli Lemgo 28. september. Ekki mun vera kostur á að selja heimaleikjaréttinn í keppninni, alltént er það afar illa séð af hálfu Handknattleikssambands Evrópu á þessu stigi keppninnar eftir því sem næst verður komist.

Gaman að fá stórleik í Valsheimilið

„Það verður gaman að fá stórleik í Valsheimilið og tækifæri til að gera stóran viðburð úr þessu. Lemgo er í mikill sókn aftur og á mikla sögu sem margir kannast við hér á landi. Margir íslenskir handknattleiksmenn hafa leikið með Lemgo í gegnum tíðina og leika enn með,“ sagði Snorri Steinn en Bjarki Már Elísson er að hefja sitt þriðja keppnistímabil með Lemgo.

Meðal annarra Íslendinga sem leikið hafa með Lemgo í gegnum tíðina má m.a. nefna Sigurð Val Sveinsson, Loga Geirsson, Ásgeir Örn Hallgrímsson og Vigni Svavarsson.

Sjá hvar þeir standa

„Fyrst og síðast er það gott fyrir okkur í handboltanum hér heima að reyna okkur gegn svona góðu liðið, jafnvel þótt við séu nokkuð lerkaðir eftir kóvídveikindi. Ég er með innan míns hóps leikmenn sem hafa verið í landsliðinu og aðra sem eiga sér þann draum að komast að hjá liði eins og Lemgo. Nú fá þeir tækifæri til þess að sýna hvar þeir standa,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Íslandsmeistara Vals í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -