- Auglýsing -
- Auglýsing -

Frábært veganesti til Kaíró

Ágúst Elí Björgvinsson markvörður danska úrvalsdeildarliðsins KIF Kolding og íslenska landsliðsins. Mynd/Mummi Lú
- Auglýsing -

Íslenska landsliðið vann afar góðan sigur á landsliði Portúgals í síðari leik landsliðanna í undankeppni EM í Schenker-höllinni á Ásvöllum í dag, 32:23, eftir að hafa verið marki undir í hálfleik, 13:12. Frábær leikur liðsins á lokamínútum fyrri hálfleiks eftir að hafa verið fimm mörkum undir, 12:7, og á 20 fyrstu mínútum síðari hálfleiks gerði alveg út af við portúgölsku leikmennina sem hentu inn handklæðinu löngu áður en leiktíminn var úti.

Sigurinn er kærkomið veganesti fyrir heimsmeistaramótið en fyrsti leikur íslenska liðsins í mótinu á fimmtudaginn verður einmitt gegn Portúgal.
Sóknarleikur íslenska landsliðsins var ekki sem bestur á fyrstu 10 mínútum leiksins. Liðið skoraði aðeins þrjú mörk gegn sex portúgölskum. Minnti sóknarleikurinn um margt á upphafskafla leiksins í Porto á miðvikudagskvöldið. Björgvin Páll Gústavsson náði sér ekki á strik og hafði ekki varið skot þegar Ágúst Elí Björgvinsson skipti við hann eftir ríflega 11 mínútur.


Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður var munurinn þrjú mörk, 8:5, Portúgal í hag. Á fyrstu 20 mínútum leiksins var í þrígang dæmd töf á íslenska liðið. Ráðaleysið var mikið. Illa gekk að hreyfa til stóra og sterka varnarmenn portúgalska liðsins sem gengu af ákveðni út í íslensku sóknarmennina.
Eftir liðlega 20 mínútur reyndi íslenska landsliðið að fara í sjö á sex í sókninni enda hafði staðan heldur versnað en hitt og munurinn orðinn fjögur mörk, 10:6. Enn hallaði því miður undan fæti. Portúgalar náðu fimm marka forskoti um skeið, 12:7. Hvorki gekk né rak þangað til skyndilega breyting varð. Varnarleikurinn small saman og það skilað fimm íslenskum mörkum í röð, tvö eftir hraðaupphlaup, tvö yfir endilangan völlinn og það fimmta eftir uppstilltan leik. Janus Daði Smárason jafnaði metin þegar hálf mínúta var til loka fyrri hálfleiks, 12:12. Portúgalir skoruðu um hæl og minnstu mátti muna að Elliði Snær Viðarsson jafnaði metin fyrir Ísland úr síðasta skoti hálfleiksins.


Portúgalska liðið var marki yfir í hálfleik, 13:12.

Fögnuður í herbúðum íslenska landsliðsins í leikslok í kvöld eftir sigurinn á Portúgal. Mynd/Guðmundur Lúðvíksson.


Íslenska landsliðið hélt áfram þar sem frá var horfið á upphafsmínútum síðari hálfleiks og skoraði þrjú fyrstu mörkin, Bjarki Már tvö og Sigvaldi Björn eitt. Tvö þeirra voru eftir hraðaupphlaup. Tónninn sem gefinn var í fyrri hálfleik fékk að lifa áfram. Þegar síðari hálfleikur var hálfnaður var munurinn orðinn fimm mörk, 22:17, Íslandi í hag. Mikil umskipti höfðu orðið frá því 20 mínútum fyrr þegar portúgalska liðið var fimm mörkum yfir, 12:7, og allt virtist ganga Íslendingum í mót.


Munurinn var kominn í níu mörk, 27:18, þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Úrslitin voru ráðin. Portúgalar hentu inn handklæðinu tíu mínútum fyrir leikslok þegar Ísland tók leikhlé. Þá nýttu leikmenn Portúgals ekki hléið til þess að ráða ráðum sínum. Slík nýting á leikhléi er afar sjaldgæf.


Auk gjörbreytingar á leik Íslands, jafnt í vörn sem í sókn þá átti Ágúst Elí Björgvinsson framúrskarandi leik í marki sem hann nær vonandi að fylgja eftir þegar komið verður á HM. Annan leikinn í röð stimplaði Ágúst sig hressilega inn í íslenska landsliðið sem er gleðiefni að aukin breidd færist í þá stöðu og veitir ekki af.


Gangur leiksins: 1:0, 1:1, 1:2, 2:2, 2:3, 3:3, 3:4, 3:5, 3:6, 4:6, 4:7, 5:7, 5:8, 6:8, 6:9, 6:10, 6:11, 7:11, 7:12, 8:12, 9:12, 10:12, 11:12, 12:12. 12:13, 13:13, 14:13, 15:13, 15:14, 16:14. 16:15, 18:15, 18:17, 19:17, 21:17, 22:17, 23:17, 24:17, 25:17, 27:18, 29:19, 29:20. 30:20, 31:21, 31:22, 32:22, 32:23.

Mörk Íslands: Bjarki Már Elísson 9, Elvar Örn Jónsson 5, Arnór Þór Gunnarsson 3, Elliði Snær Viðarsson 3, Ómar Ingi Magnússon 3, Janus Daði Smárason 2, Sigvaldi Björn Guðjónsson 2, Ólafur Andrés Guðmundsson 1, Gísli Þorgeir Kristjánsson 1, Kristján Örn Kristjánsson 1, Viggó Kristjánsson 1, Ágúst Elí Björgvinsson 1.

Varin skot: Ágúst Elí Björgvinsson 11/1.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -