Frakkar eru heimsmeistarar kvenna í handknattleik eftir sigur á heimsmeisturum Noregs frá 2021, 31:28, í úrslitaleik í Jyske Bank Boxen í Herning í Danmörku í kvöld. Þetta er í þriðja sinn sem Frakkar verða heimsmeistarar í kvennaflokki í handbolta og fyrsta sinn frá 2017. Með sigrinum náði franska liðið að hefna fyrir slæmt tap í úrslitaleik HM fyrir tveimur árum, 29:22.
Frakkar voru sterkari og ferskari en Norðmen í leiknum frá upphafi til enda. Gríðarlegur hraði var í leiknum, ekki síst í fyrri hálfleik þegar skoruð voru 37 mörk, þar af skoruðu Frakkar 20 mörk.
Norðmenn voru þremur til fjórum mörkum undir lengst af síðari hálfleiks. Þeim tókst að minnka muninn í eitt mark, 26:25, þegar 10 og hálf mínúta var til leiksloka. Nær komst lið fráfarandi heimsmeistara ekki.
Frakkar fóru taplausir í gegnum átta leiki mótsins, eitt liða eins og gefur e.t.v. auga leið. Noregur tapaði tvisvar á mótinu, í bæði skiptin fyrir Frakklandi.
Þetta eru fimmtu silfurverðlaun Noregs á heimsmeistaramóti.
Þórir Hergeirsson hefur stýrt norska landsliðinu á átján stórmótum og sextán sinnum unnið til verðlauna.
Pauletta Foppa var besti leikmaður vallarins í úrslitaleiknum. Hún skoraði aðeins einu sinni, var frábær í vörninni, var þar fremst á meðal jafningja.
Mörk Frakklands: Tamara Horacek 5, Léna Grandveau 5, Orlane Kanor 4, Chloé Valentini 4, Sarah Bouktit 3/2, Estelle Nze Minko 3, Laura Flippes 2, Alicia Toublanc 2, Méline Nocandy 1, Lucie Granier 1, Pauletta Foppa 1.
Varin skot: Laura Glauser 4, 20% – Hatadou Sako 4/1, 25%.
Mörk Noregs: Nora Mørk 8, Stine Bredal Oftedal 6, Henny Ella Reistad 5, Camilla Herrem 4, Ingvild Kristiansen Bakkerud 2, Emilie Margrethe Hovden 2, Maren Nyland Aardahl 1.
Varin skot: Katrine Lunde 7/2, 30% – Silje Solberg 2, 13%.