- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fram fagnaði verðskulduðum Íslandsmeistaratitli

Fram er Íslandsmeistari í handknattleik kvenna 2022. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

Fram varð Íslandsmeistari í handknattleik kvenna í 23. sinn í kvöld eftir að hafa lagt Val í þriðja sinn í úrslitaleik, 23:22, í Origohöll Valsara við Hlíðarenda. Fjögur ár eru liðin síðan Fram vann Íslandsmeistaratitilinn í kvennaflokki og sigurgleðin var ósvikin að leikslokum. Ekki þótt Framliðinu verra að fagna á heimavelli Vals en lengi hefur verið rígur á milli félaganna auk þess sem Valur vann Fram í úrslitaleik bikarkeppninnar í mars.


Leikirnir fjórir voru jafnir og skemmtilegir svo að þegar upp er staðið munar að aðeins fjórum mörkum, 102:98.

Óhætt er að segja að sigur Fram á Íslandsmótinu hafi verið verðskuldaður. Liðið var öflugast í deildarkeppninni og vann sex af sjö leikjum í úrslitakeppninni. Fram var með frumkvæðið í leikjunum við Val að undanskildum annarri viðureigninni þótt ekki hafi munað mörgum mörkum.


Fyrri hálfleikur í viðureigninni í kvöld var afar jafn eins og þeir fyrri í þessari rimmu. Frumkvæðið var frekar í höndum Fram sem náði þrisvar sinnum tveggja marka forskoti, 3:1, 10:8 og 11:9. Annars var varnarleikurinn í öndvegi. Aðeins hefur dregið úr hraðanum í leikjunum eftir því sem þeim hefur fjölgað. Einu marki munaði á liðunum í hálfleik, 11:10, Fram í vil.


Framliðið byrjaði mjög vel í síðari hálfleik og var komið með fjögurra marka forskot eftir 13 mínútur, 18:14. Þá breytti Valur um áherslu í vörninni og hikst kom í sóknarleik Fram. Valur jafnaði metin, 18:18, 19:19 og 21:21. Valsliðið fór illa að ráði sínu í nokkrum sóknum og fékk að súpa seyðið af því. Framarar komust yfir á nýjan leik og héldu forskoti til leiksloka þótt sem fyrr reyndu leikmenn Vals allt hvað þeir gátu til að saxa á forskotið.


Mörk Vals: Lovísa Thompson 5, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 5, Thea Imani Sturludóttir 4, Elín Rósa Magnúsdóttir 3, Morgan Marie Þorkelsdóttir 2, Hildigunnur Einarsdóttir 1, Auður Ester Gestsdóttir 1, Hildur Björnsdóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 5, 22,7%.

Mörk Fram: Karen Knútsdóttir 9/6, Kristrún Steinþórsdóttir 4, Steinunn Björnsdóttir 4, Þórey Rósa Stefánsdóttir 3, Emma Olsson 1, Hildur Þorgeirsdóttir 1, Erna Guðlaug Gunnarsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 12, 35,3%.


Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.

Handbolti.is var í Origohöllini og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -