Arnór Máni Daðason var hetja Fram þegar hann varði vítakast Símons Michaels Guðjónsson eftir að leiktími síðari framlengingar var á enda í fjórða og síðasta undanúrslitaleik Fram og FH í Lambhagahöllinni í kvöld. Arnór Máni sá til þess að Fram vann með eins marks mun, 34:33, í hnífjafnri viðureign liðanna þar sem vart mátti á milli sjá. Um leið kom hann í veg fyrir að vítakeppni þyrfti til að ná fram sigri á annan hvorn veginn.
Það er sem meira er þá var vítakastið eitt af fáum skotum sem markverðir Fram vörðu í framlengingunum.

Fram leikur þar með til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í Olísdeild karla í fyrsta sinn í 12 ár. Andstæðingurinn verður annað hvort Afturelding eða Valur sem mætast í fjórða sinn að Varmá annað kvöld. Íslandsmeistarar síðasta árs og deildarmeistarar FH frá í vor eru þar með úr leik eftir einn mesta spenntryllir úrslitakeppninni á síðari árum.
Fram var yfir í hálfleik, 15:10. FH átti mikið áhlaup síðustu 12 mínútur venjulegs leiktíma og tókst að jafna metin, 24:24, og knýja fram framlenginu. Ekki síst með frábærum varnarleikur og stórkostlegri innkomu Birkis Fannars Bragasonar markvarðar.
FH komst í fyrsta sinn yfir í leiknum, 25:24, á fyrstu mínútu framlengingar.
Eftir fyrstu framlenginu var staðan jöfn, 29:29. Báðar framlengingarnar voru hnífjafnar en forystan sveiflaðist aðeins á milli sem nam einu til tveimur mörkum.

Troðfullt í Lambhagahöllinni og nærri 1.500 áhorfendur sem er metaðsókn í þessu nýja og glæsilega íþróttahúsi sem mun verða vettvangur fleiri úrslitaleikja á næstu vikum.
Reikna má með að fyrsti úrslitaleikurinn verði 13. maí en ekki í Lambhagahöllinni heldur annað hvort að Varmá eða á Hlíðarenda.
Mörk Fram: Reynir Þór Stefánsson 9, Rúnar Kárason 8, Marel Baldvinsson 7, Dagur Fannar Möller 5, Ívar Logi Styrmisson 2/1, Erlendur Guðmundsson 2, Eiður Rafn Valsson 1.
Varin skot: Arnór Máni Daðason 16/2, 33,3% – Breki Hrafn Árnason 1, 11,1%.
Mörk FH: Símon Michael Guðjónsson 8/6, Ásbjörn Friðriksson 7, Jóhannes Berg Andrason 5, Einar Örn Sindrason 4, Einar Sverrisson 3, Jón Bjarni Ólafsson 2, Ágúst Birgisson 2, Garðar Ingi Sindrason 1, Jakob Martin Ásgeirsson 1.
Varin skot: Birkir Fannar Bragason 10/, 40% – Daníel Freyr Andrésson 5/1, 20,8%.
Tölfræði HBStatz.
Handbolti.is var í Lambhagahöllinni og fylgdist með í textalýsingu hér fyrir neðan.