- Auglýsing -
- Auglýsing -

Framarar tóku Þórsara í kennslustund

Andri Már Rúnarsson lék afar vel í sigurleik Fram í kvöld. Mynd/Fram
- Auglýsing -

Eftir þrjá tapleiki í röð þá sneru Framarar blaðinu við af krafti í kvöld þegar þeir tóku Þórsara í kennslustund í Framhúsinu í 18. umferð Olísdeildar karla í handknattleik. Fram-liðið lék af fullum þunga frá upphafi til enda og vann síst of stóran sigur, 31:19, eftir að hafa verið sjö mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 16:9.


Óhætt er að segja að þetta hafi ekki verið kvöld Þórsara. Þeir náðu sér aldrei á strik. Varnarleikurinn var í molum og markverðirnir Jovan Kukobat og Arnar Þór Fylkisson ekki öfundsverðir af hlutverkum sínum.

Sóknarleikurinn var slakur og skotnýtingin hreint afleit þegar leikmönnum tókst að skapa sér færi. Segja má að þeir hafi hent frá sér leiknum upp úr miðjum síðari hálfleik þegar hvert skotið geigaði á fætur öðru og leikmenn Fram keyrðu í bakið á Akureyringum með hverju hraðaupphlaupinu á fætur öðru.


Fram-liðið gaf ekkert eftir þrátt fyrir talsverða forystu í síðari hálfleik. Leikmenn voru á fullri ferð til enda. Þórsarar reyndu um skeið að fara í sjö manna sóknarleik en það beit lítt á vörn Fram né bætti úr skák í slökum sóknarleik Þórsara.


Eftir góðan sigur á Val fyrir rúmri viku virðist Þórsurum hafa fallið allur ketill í eld, þvert á það sem búast mátti við.

Staðan í Olísdeild karla.

Mörk Fram: Andri Már Rúnarsson 8, Ólafur Jóhann Magnússon 6, Kristófer Dagur Sigurðsson 4, Þorvaldur Tryggvason 3, Breki Dagsson 3, Stefán Darri Þórsson 2, Sigurður Örn Þorsteinsson 2, Þorgrímur Smári Ólafsson 2, Kristinn Hrannar Bjarkason 1.
Varin skot: Lárus Helgi Ólafsson 11, 36,7%.
Mörk Þórs: Ihor Kopyshynskyi 7/2, Karolis Stropus 5, Gísli Jörgen Gíslason 2, Hafþór Ingi Halldórsson 1, Þórður Tandri Ágústsson 1, Garðar Már Jónsson 1, Sigurður Kristófer Skjaldarson 1, Arnór Þorri Þorsteinsson 1.
Varin skot: Jovan Kukobat 8, 25% – Arnar Þór Fylkisson 4, 40%.
Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -