- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fyrrverandi stórskytta tryggði annað stigið á síðustu sekúndu

Jón Bjarni Ólafsson var óstöðvandi. Mynd/J.L.Long
- Auglýsing -

Jón Bjarni Ólafsson tryggði FH annað stigið gegn Stjörnunni í viðureign liðanna í 7. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í Mýrinni í Garðabæ í kvöld. Jón Bjarni jafnaði metin með ævintýralegu skoti eftir sendingu Arons Pálmarssonnar á síðustu sekúndu leiksins, 34:34. Kom það sér vel fyrir línumanninn Jón Bjarna hafa eitt sinn leikið sem skytta.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.

Jöfnunarmark FH kom eftir að Sigursteinn Arndal tók leikhlé þegar fjórar sekúndur voru til leiksloka. Lagt var ráðin og svo virtist sem sóknin ætlaði ekki að ganga upp hjá FH þegar Aron virtist stöðvaður. Hann kom boltanum frá sér á línumanninn sem hikaði ekki enda leyfði leiktíminn ekkert hik.


Andartökum áður hafði Pétur Árni Hauksson skoraði 34. mark Stjörnunnar. Mark sem heimamenn vonuðu að myndi færa þeim annan sigurinn á leiktíðinni. Sú varð ekki raunin. Stjörnumenn voru vonsviknir í leikslok og máttu svo sannarlega vera það.

Stjörnumenn voru með yfirhöndina frá miðjum fyrri hálfleik og fram í byrjun þess seinni þegar FH skoraði fjögur fyrsta mörkin og komst yfir, 18:20. Stjarnan hafði verið tveimur mörkum yfir eftir 30 mínútur, 18:16.

Stjarnan jafnaði sig á öflugri byrjun FH og komst yfir aftur. Heimaliðið var síðan með forystu 1 til 2 mörk þangað til í lokin að FH jafnaði metin nokkrum sinnum með stórleik Einars Braga Aðalsteinssonar sem raðaði inn mörkum síðasta stundarfjórðunginn.

Tandri Már Konráðsson fór á kostum í Stjörnuliðinu og skoraði 12 mörk, þar af átta í fyrri hálfleik. Naut hann sín vel í sjö manna sóknarleik liðsins.

Varnarleikur FH var ekki viðunandi í kvöld, ekki fremur en í síðasta leik gegn RK Partizan í Evrópubikarkeppninni. Markvarslan var þar af leiðandi ekki góð. Sóknarleikurinn gekk betur en það er ljóst að það dugir ekki að skora 34 mörk til að vinna leiki þá þarf að skoða varnarleikinn betur.

Reyndar var varnarleikur Stjörnunnar ekki heldur eins og best verður á kosið en það er heldur ekki heiglum hent að verjast Aroni, Jóhannesi Berg, Einari Braga og fleiri sóknarmönnum FH-inga.

Ásbjörn Friðriksson kom nánast ekkert við sögu hjá FH-ingum. Honum brást bogalistin í einu vítakasti og lét nánast þar við sitja.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.

Mörk Stjörnunnar: Tandri Már Konráðsson 12, Pétur Árni Hauksson 6, Hergeir Grímsson 4/2, Benedikt Marinó Herdísarson 4, Hrannar Máni Eyjólfsson 2, Sigurður Jónsson 2, Victor Máni Matthíasson 2, Jón Ásgeir Eyjólfsson 1, Hrannar Bragi Eyjólfsson 1.
Varin skot: Adam Thorstensen 2, 8%, Sigurður Dan Óskarsson 2/1 15,4%. Þrátt fyrir að markvarslan hafi ekki verið góð hjá Stjörnunni er ástæða til þess að draga þessa tölfræði HBStatz mjög í efa. Sigurður varði vafalaust fleiri en tvö skot.

Mörk FH: Einar Bragi Aðalsteinsson 8, Jón Bjarni Ólafsson 5, Aron Pálmarsson 4, Jakob Martin Ásgeirsson 4, Leonharð Þorgeir Harðarson 3, Birgir Már Birgisson 3, Einar Örn Sindrason 2, Jóhannes Berg Andrason 2, Símon Michael Guðjónsson 2, Atli Steinn Arnarsson 1.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 5, 15,6% – Axel Hreinn Hilmisson 4, 36,4%. Einnig þarf að setja spurningamerki við varin skot hjá FH samkvæmt tölfræði HBStatz.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -